Örtækni framtíðarinnar

Markmiðið er að leggja grunninn að nýjum nálgunum við framleiðsluferli í örtækni framtíðarinnar. Það er ómögulegt að segja hvert gildi slíkra framfara fyrir samfélagið í heild gæti verið en það er ljóst að efnahagslegur og tæknilegur ávinningur getur verið verulegur þar sem örtækniiðnaðurinn er gríðarlega umfangsmikill og hefur nú þegar gjörbreytt okkar lífsháttum,“ segir Oddur Ingólfsson, prófessor í eðlisefnafræði, um risastórt samevrópskt rannsóknarverkefni í örtækni sem hann stýrir þessi misserin.
 
Verkefnið nefnist ELENA og hlaut fjögurra milljóna evra styrk úr rannsóknaáætlun Evrópusambandsins árið 2016. Auk Háskóla Íslands og Raunvísindastofnunar Háskólans tengjast verkefninu 13 aðrir háskólar, þrjár vísindastofnanir og fimm fyrirtæki frá alls 13 löndum.
 
Samstarf hópsins sem kemur að verkefninu má rekja tíu ár aftur í tímann en þá stýrði Oddur öðru rannsóknarverkefni sem hafði það að markmiði að tengja saman vísindamenn innan ákveðins sviðs eðlisefnafræði. Sá hópur vann síðan saman að öðru verkefni þar sem áherslan var á hlutverk lágorkurafeinda í örprentun yfirborða með skörpum háorkurafeindageislum. „Á grundvelli þessara verkefna og þeim tengslum sem myndast höfðu ákváðum við að taka þessa samvinnu einu skrefi lengra og sækja um styrk þar sem fjármagnið er töluvert meira enda dýrar rannsóknir og mannfrekar ef virkilegur árangur á að nást,“ segir Oddur.
 
Nýja verkefnið snýr í meginatriðum að efnafræði sem grundvelli örtækni. „Örtækni hefur verið nefnd tækni 21. aldarinnar en hún byggist á nákvæmri stjórn á samsetningu og uppbyggingu örsmárra, virkra íhluta í tæknibúnaði sem nýtist á margvíslegan máta. Nærtækast er að nefna örgjörva og rafrásir í tölvum og samskiptabúnaði en örtæknin nýtist í dag á mun breiðari vettvangi, meðal annars í vöktun, líftækni og læknisfræði,“ bendir Oddur á.
 
Örtækni þróast hins vegar hratt og krafan eykst sífellt um smærri einingar og betri stjórn á samsetningu þeirra. Þessari kröfu hyggst alþjóðlegi vísindahópurinn svara undir forystu Odds og vill efla rannsóknir á þessu sviði innan Evrópu. „Í rannsóknum vísindahópsins verður sjónum sérstaklega beint að tvenns konar tækni til örtækniprentunar yfirborða, annars vegar með skörpum rafeindageislum og hins vegar með háorkuljósgeislum,“ segir Oddur.
 
Fimmtán doktorsnemar taka þátt í verkefninu, þar af þrír á Íslandi, og er reiknað með að þeir verði framtíðarvísindamenn á sviði efna- og eðlisfræði. „Verkefnið miðar því líka að því að byggja upp doktorsnám í samvinnu háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Ætlunin er að gefa hér fordæmi sem kynnt verður innan evrópskra háskóla og ef vel tekst til vonumst við til að verkefnið verði fordæmi sem gagnist við að styrkja doktorsnám í Evrópu þannig að það nýtist nemendum á breiðari grunni en áður,“ segir Oddur að endingu.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is