Ný aðferð mælir sýrustig í örlitlum ræktunarklefum

Einar Búi Magnússon, MS í eðlisfræði, og Skarphéðinn Halldórsson , nýdoktor við Kerfislíffræðisetur Háskóla Íslands, nýdoktor við Kerfislíffræðisetur Háskóla Íslands

Kerfislíffræði og nanótækni eru hvort tveggja ört vaxandi greinar innan vísindanna, þar á meðal í Háskóla Íslands. Einar Búi Magnússon, sem lauk meistaranámi í eðlisfræði á síðasta ári, og Skarphéðinn Halldórsson, doktor í sameindalíffræði við Kerfislíffræðisetur Háskóla Íslands, sameinuðu krafta sína í sumar í rannsóknaverkefni sem snertir báðar greinarnar.

„Rannsóknin snerist um þróun nýrrar aðferðar til að mæla sýrustig í örsmáum vökvarásum sem notaðar eru til að rækta frumur til rannsókna,“ segir Einar. Nákvæm stýring á sýrustigi í frumuræktun er mikilvæg til þess að stuðla að eðlilegum vexti og viðgangi frumanna, enda er sýrustig í líkamanum háð nákvæmri stýringu.

Forsaga málsins er sú að Kerfislíffræðisetur tók nýlega í notkun örflæðikerfi, en það er ein merkilegasta nýjung í frumurannsóknum sem fram hefur komið á síðustu árum. „Þó að kerfið bjóði upp á gríðarlega afkastaaukningu við frumurækt er margt sem reynist erfiðara en með hefðbundnum aðferðum. Til dæmis er erfitt að mæla sýrustig þar sem rúmmál ræktunarklefanna er einungis 60 nanólítrar,“ bendir Skarphéðinn á.

Til þess að mæla sýrustigið í örklefunum þarf að notast við ljósmælingu sem felst í því að setja í frumuætið efni sem er næmt fyrir sýrustigi og annaðhvort flúrljómar eða sogar í sig ljós við ákveðnar bylgjulengdir. „Í flestum tegundum frumuætis er litarefnið phenol-rauður sem gerir mögulegt að meta sýrustig gróflega með berum augum í nægilegu rúmmáli af vökvanum. Þetta efni hafði ekki verið notað áður í rannsóknum á sýrustigi í örflæðirásum og því sáum við okkur leik á borði í því að rannsaka það,“ útskýrir Einar.

„Með því að taka viðmiðunarmyndir í hreinu vatni tókst okkur að mæla sýrustigið af undraverðri nákvæmni í þessum örlitlu ræktunarklefum með phenol-rauðum, einungis með hjálp hefðbundinnar smásjár og ódýrum ljóssíum,“ segir Skarphéðinn og bætir við að aðferðin hafi verið notuð til að fylgjast með þróun sýrustigs þegar koltvísýringi hafði verið dælt yfir örflæðirásirnar.

Niðurstöðurnar munu, að sögn tvímenning- anna, hafa mikið notagildi því að þessi nýja aðferð sé mun ódýrari og einfaldari í hönnun en fyrri aðferðir við sýrustigsmælingar. Því megi búast við að aðferðin verði tekin í reglubundna notkun meðal fleiri vísindamanna fljótlega.

Einar Búi lauk meistaraprófi frá Háskóla Íslands árið 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is