
Ljósleiðarar hafa umbreytt getu okkar til að senda skilaboð örar en nokkru sinni fyrr í formi ljóss á meðan tölvur, símar, bílar, og nánast öll hvers-dags-tækni styðst við samfléttaðar rafrásir til að vinna úr upplýsingunum með hjálp nanósmára. Að brúa bilið milli ljóseinda og rafeinda er erfitt verkefni sem oft felur í sér einhverja seinkun á skilaboðum (lægri tíðni) eða orkutapi (t.d. viðnám rafeinda). Nanó- og míkró-skópísk ljósrásartækni snýst um að stýra ljósi á skilvirkan hátt í litlu rými líkt og nútíma-rafrásir leiða rafmagn í flögum og örgjörvum. Slík tækni getur rutt veginn að bæði klassískri- og skammta-ljóstölvun þar sem smárar og rökhlið ganga fyrir ljósi í stað rafmagns. Ein helsta hindrun er að fá ljóseindir til að skynja hvor aðra nægilega mikið til að framkalla sterka ólínulega svörun (líkt og rafeindir) þegar þær safnast saman á lykilstöðum í ljósrásinni.
Í nýlegri grein, birt í Nature Materials, þróuðu vísindafólk frá Háskólanum í Varsjá í Pólandi (Mateusz Kędziora og Barbara Piętka), Háskóla Íslands (Helgi Sigurðsson), o.fl.*, nýja míkró-vökva aðferð til að framleiða slíkar ljósrásir úr CsPbBr3 perovskite kristöllum. Blý-halíð perovskite kristallar eru hálfleiðandi efni með öfluga ljóssvörun sem nýtast meðal annars í sólhlöðu- og ljósspennu-tækni, og ljósleysa og ljósdíóður við stofuhita. Þessir kristallar eru því kjörið efni í ljósrásir með öfluga ólínulega hegðun.