Hildur Kristmundsdóttir ráðin forstöðumaður Raunvísindastofnunar
Hildur Kristmundsdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður Raunvísindastofnunar Háskólans og hóf hún störf 3. janúar.
Hildur starfaði hjá Íslandsbanka frá árinu 1998 í ýmsum störfum, meðal annars sem forstöðumaður á einstaklingssviði frá árinu 2017 til 2023 er hún tók við starfi viðskiptastjóra eignastýringar hjá Fossum fjárfestingabanka. Hildur er með Fil.kand í sálfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún er með MBA frá Háskóla Íslands og MS-próf í alþjóðlegum fjármálum og bankastarfsemi frá Háskólanum á Bifröst. Hún hefur einnig lokið námi í verðbréfaviðskiptum.
Hildur kveðst mjög spennt fyrir því að starfa í fjölbreyttu umhverfi Raunvísindastofnunar en þar starfar framúrskarandi vísindafólk að viðamiklum grunnrannsóknum á sviði stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði og jarðeðlisfræði. „Starfsemi Raunvísindastofnunar er margþætt. Helsta verkefni stofnunarinnar er að afla nýrrar þekkingar á fagsviðum sínum með grunnrannsóknum en mikilvægt hlutverk er einnig að halda utan um þjónusturannsóknir og veita ráðgjöf um eðlis- og efnisvísindi, náttúruvá og umhverfismál. Stofnunin miðlar þekkingu með því að birta og kynna niðurstöður rannsókna og eflir kennslu með því að byggja upp frjótt rannsóknarumhverfi fyrir nemendur og þjálfa þá í vísindalegri hugsun og vinnubrögðum í raunvísindum. Að auki er mikil áhersla lögð á samvinnu starfsmanna Raunvísindastofnunar við aðrar stofnanir og fyrirtæki hér heima og á erlendum vettvangi.“
Raunvísindastofnun samanstendur af tveimur faglega sjálfstæðum stofnunum, Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun og Jarðvísindastofnun, auk þess sem rekstur Norræna eldfjallasetursins, Örtæknikjarnans og Efnagreiningarsetursins heyrir undir stofnunina.