
Dr. Gianluca Levi, nýdoktor við Raunvísindastofnun Háskólans, hefur hlotið 1,5 milljóna evra styrk, jafnvirði nærri 230 milljóna króna, frá Evrópska rannsóknaráðinu (ERC) til rannsóknaverkefnis sem miðar að því að þróa nýjar aðferðir og tækni sem auðveldar þróun nýrra og hagkvæmari leiða til að nýta sólarorku. Þetta er níundi styrkurinn sem vísindamenn tengdir HÍ fá frá ERC.
Verkefnið ber yfirskriftina „New excited state methods for overcoming challenges in sunlight conversion“ (NEXUS). Það er til fimm ára og telst vera grunnrannsóknir þar eð einkum er um að ræða þróun á nýjum reikniaðferðum og innleiðingu þeirra. Grunnrannsóknir hafa verið grundvöllur flestra uppgötvana og nýjunga sem við þekkjum í nútímasamfélagi.
Gianluca hefur starfað sem nýdoktor í rannsóknarhópi Hannesar Jónssonar, prófessors við Raunvísindadeild HÍ, frá árinu 2018 og hefur unnið að rannsóknum með stuðningi frá Rannsóknasjóði Íslands sem einkum hafa falið í sér þróun líkana af örvuðum ástöndum sameinda. Talað er um að sameind sé í örvuðu ástandi eftir að hún gleypir í sig geislun, t.d. frá sólarljósi. Gianluca hefur einnig sett á fót eigin rannsóknarhóp sem hefur lagt áherslu á tilraunir með ofurhröðum ljóshvötuðum ferlum sem tengjast umbreytingu sólarljóss.
Í átt að betri og skilvirkari sólarorkuvinnslu
Rannsóknin tengist lífefnafræðilegum ferlum sem eru vel þekktir í náttúrunni, eins og ljóstillífun sem plöntur nota til að vinna orku úr sólarljósi. Í þessum ferlum á sér stað umröðun á bæði rafeindum og atómum í sameindum fyrir tilstilli orkunnar sem berst frá sólinni í formi ljósenda. Mönnum hefur tekist að beisla orku sólarinnar með þróun sólarrafhlaðna. Einnig hafa verið þróuð kerfi sem að hluta líkja eftir ljóstillífun og framleiða orkurík efni. Kerfin eru hins vegar ekki mjög skilvirk eða hagkvæm, m.a. vegna þess að það skortir betri skilning á þeim ferlum sem eiga sér stað þegar sólarljósi er breytt í orkuríkar sameindir.
Markmiðið með rannsóknaverkefninu er því að varpa skýrara ljósi á þessa ferla með aðstoð nýjustu tækni og þá einkum reikniaðferða sem Gianluca og samstarfsfólk hefur verið að þróa. Ætlunin er að öðlast betri skilning á því hvernig atóm og rafeindir bregðast við þegar ljósgeislar lenda á sameindum og þær gleypa í sig ljóseindir, bæði þann tilflutning sem verður á rafeindum innan og milli atóma og áhrifin sem sólarljósið hefur á uppbyggingu sameinda.