Ljósvökvar settir í snúning

Þegar þú hrærir í potti eða tekur tappa úr baði getur þú oftast séð iðu (eða hvirfil) myndast í stutta stund þegar vökvinn myndar sterkt hringstreymi. Slíkar iður geta líka átt sér stað í smáheimi skammtafræðinnar þar sem ótal agnir koma sér saman til að mynda ofurvökva með stöðuga hringhreyfingu sem er jafnframt skömmtuð. Skammtafræðilegar iður voru fyrst uppgötvaðar kringum 1961 í tilraunum með fljótandi helíum og seinna meir ofurköldum gastegundum til að framkvæma grundvallarrannsóknir á kvikleika skammtafræðilegra vökva.

Í nýlegri grein sem var birt í Science Advances, þróuðu Ivan Gnusov og rannsóknarteymi í ljóseðlisfræði og þéttefnisfræði milli Bretlands, Rússlands og Íslands svokallaða „snúningsfötu“ tilraun til að framkalla skammtaðar iður í nýrri gerð af ofurvökva. Tilraunin var framkvæmd á ljósskauteindavökva (e. exciton-polariton Bose-Einstein condensate) innan í örgeislaholi úr hálfleiðara (e. semiconductor microcavity). Þegar leysigeisli sem féll á ofurvökvann var settur í snúning þá brást ofurvökvinn við með því að mynda iðu, svipað og þegar hrært er í potti eða þegar vatnsfata er látin snúast. Niðurstöðurnar sýndu að hægt er að stjórna skammtafræðilegu ástandi ljóssvökvans með nánast klassískum aðferðum, sem hefur getur haft mikið vægi á grundvallarrannsóknir á ljósfræðilega ofurvökva.

Nánari upplýsingar

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is