Efnafræðinemar á leið til fundar við Nóbelsverðlaunahafa

Tveir nemendur í efnafræði við Háskóla Íslands, þær Hafdís Haraldsdóttir og Sólrún Elín Freygarðsdóttir, hafa verið valdar til þátttöku í The Lindau Nobel Laureate Meeting, vikulangri dagskrá í Þýskalandi í sumar með um 35 Nóbelsverðlaunahöfum og 600 ungum vísindamönnum.

The Lindau Nobel Laureate Meeting er nú haldinn í 71. sinn í bænum Lindau en þetta er í fyrsta sinn sem nemendur frá Háskóla Íslands fara utan til þess að taka þátt í dagskránni. Háskóli Íslands gerði í samvinnu við þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti og Rannís samkomulag við Lindau-stofnunina, sem heldur utan um viðburðinn, árið 2019 um að gerast samstarfsaðili (e. academic partner) en í því felst að skólanum býðst að tilnefna nemendur til þátttöku árlega.

Tveir fyrrverandi nemendur skólans, Þórir Einarsson Long og Guðrún Höskuldsdóttir, voru valin til þátttöku í þverfræðilegri dagskrá árið 2020 en vegna kórónuveirufaraldursins var viðburðinum aflýst. Þeim bauðst hins vegar að taka þátt í rafrænni dagskrá í fyrra.

Þórir, sem lauk kanditasprófi í læknisfræði frá HÍ árið 2015 og doktorsnámi í læknisfræði frá HÍ 2019, stundar nú sérnám í læknisfræði í Lundi. Guðrún lauk BS-prófi í verkfræðilegri eðlisfræði frá HÍ vorið 2020 og leggur nú stund á meistaranám í orkuverkfræði við ETH Zurich (Tækniháskólann í Zurich).  Þau létu afar vel af þátttöku í viðburðinum. „Þetta var alveg frábær reynsla. Það sem stóð upp úr hjá mér voru fyrirspurnartímarnir með Nóbelsverðlaunahöfunum þar sem oft voru bara nokkrir nemendur og maður gat spurt spurninga en þetta var í raun bara eins og persónulegt spjall líka á léttu nótunum við Nóbelsverðlaunahafana. Ég hafði sérstaklega gaman af fyrirspurnartíma með Steven Chu sem er Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði og var orkumálaráðherra Bandaríkjanna í Obama-stjórninni,“ sagði Guðrún m.a. um reynslu sína.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is