Tilfærslur á brennisteinsatómum

Innan Háskóla Íslands fást sumir vísindamenn við spurningar sem varða samfélagið allt, alla jörðina eða jafnvel alheiminn. Aðrir beina sjónum sínum að einum af smæstu hlutum efnisheimsins, eins og atómum, enda getur vel heppnuð tilfærsla eins atóms í efnahvarfi haft víðtæk áhrif úti í samfélaginu seinna meir.
 
Í síðarnefndum hópi vísindamanna er Sigríður Suman, dósent í efnafræði, sem vinnur að því þessi misserin að finna einfaldari leiðir til þess að búa til efni sem nefnast episúlfíð. „Episúlfíð eru hliðstæð efnum sem flestir hafa heyrt um og eru kölluð epoxy. Bygging efnanna getur verið eins en episúlfíð hafa brennisteinsatóm þar sem epoxy hafa súrefnisatóm. Efnasmíðar á episúlfíðefnum eru enn erfiðar vegna fjölbreyttra efnaeiginleika brennisteins og almenna aðferðin til að búa til episúlfíð byggist á að búa til epoxy og skipta svo út súrefninu fyrir brennistein. Hugmyndin með verkefninu er því að þróa almenna aðferð til að búa til episúlfíð án þess að fara í gegnum milliskrefið með epoxy,“ útskýrir Sigríður.
 
Episúlfíð eru til ýmissa hluta nytsamleg, þar á meðal sem mikilvæg upphafsefni í brennisteinsríkum fjölliðum. „Þess konar fjölliður eru verðmætar við framleiðslu efna sem notuð eru í ljósnema, skynjara, sólarrafhlöður, linsur fyrir sjónauka og gleraugu, svo eitthvað sé nefnt,“ bendir Sigríður á.
 
Spurð um upphaf rannsóknanna segist Sigríður hafa unnið með ólífræn brennisteinsrík efni í öðru verkefni. „Þar þarf ég stundum að flytja eins og eitt brennisteinsatóm. Við þá vinnu vaknaði áhugi fyrir hvötuðum efnahvörfum sem geta stuðlað að flutningi brennisteins,“ segir hún og bætir við að fá efnahvörf þekkist þar sem flutningur brennisteinsatóms leiðir til myndunar verðmætra efna. „Það er því mikill ávinningur af grunnrannsóknum sem auka þekkingu á þessu sviði.“
 
Sigríður og samstarfsfólk hennar, m.a. úr hópi nemenda, hafa þegar smíðað efnahvata sem getur flutt brennistein. „Þetta eru lofandi niðurstöður. Einn af ávinningum af rannsóknum sem þessum getur orðið sá í framtíðinni að skrefum við framleiðslu episúlfíða fækkar. Við það getur kostnaður við framleiðslu þeirra lækkað og þar með efna sem notuð eru í ýmsa hluti sem við þekkjum úr nútímasamfélagi,“ segir Sigríður.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is