Leitar að fyrstu stjörnunum í alheiminum

Páll Jakobsson, prófessor við Raunvísindadeild

Páll Jakobsson, prófessor í stjarneðlisfræði, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í rannsóknum sínum. Sjálfur alheimurinn er undir í rannsóknaverkefninu Gammablossar: Leiftur úr fjarlægri fortíð sem hann hefur unnið að undanfarin misseri ásamt alþjóðlegum hópi vísindamanna.

„Gammablossar eru björtustu og orkumestu sprengingar í alheimi. Þeir eiga rætur að rekja til þyngdarhruns massamestu stjarnanna og eru sýnilegir úr órafjarlægð. Þeir eru því tilvaldir til þess að kanna þróun vetrarbrauta í hinum unga alheimi. Markmið rannsóknanna er m.a. að finna fyrstu stjörnurnar sem mynduðust í alheiminum,“ segir Páll um þetta lykilsvið nútímastjarnvísinda.

Áhugi á stjörnufræði hefur fylgt Páli frá barnsaldri. „Ég man ekki eftir mér öðruvísi en starandi upp í himingeiminn. Áhuginn á stjörnufræði er meðfæddur en ég verð þó að minnast á afa minn sem var duglegur að kveikja áhuga minn á hinum og þessum fyrirbærum himinhvelfingarinnar,“ segir Páll.

Rannsóknir Páls á gammablossum hófust strax í doktorsnámi við Kaupmannahafnarháskóla. „Doktorsnám mitt í Kaupmannahöfn snerist því að mestu um að brjóta til mergjar gammablossa og hvernig þeir myndast. Rannsóknir mínar núna eru einfaldlega rökrétt framhald af doktorsverkefni mínu,“ segir Páll enn fremur.

Rannsóknir Páls og samstarfsmanna hans hafa leitt af sér fjölmargar niðurstöður. „Sú merkasta er eflaust sú að við fundum fjarlægasta fyrirbæri sem nokkru sinni hefur sést frá jörðu. Aldur alheimsins var einungis um 5% af núverandi gildi þegar ljósið lagði af stað frá þeim gammablossa,“ segir Páll en grein um fundinn birtist í hinu virta vísindatímariti Nature.

Páll er afkastamikill vísindamaður og varð prófessor við Háskóla Íslands aðeins 33 ára. Hann hlaut hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2012 en sá heiður hlotnast aðeins þeim ungu vísindamönnum sem skara fram úr á sínu sviði. Við þetta má bæta að Páll situr í ráðgjafarhópi bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA) um næstu skref í könnun geimsins.

Páll bendir á að það sé innbyggt í mannskepnuna að rannsaka það sem er ókannað. „Svipað og landkönnuðir drógu upp segl og sigldu þá verðum við að beina sjónaukum okkar í átt að himinhvelinu. Það er ekki að ástæðulausu sem stjörnufræðin er elsta vísindagreinin,“ segir Páll að lokum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is