Háloftadeild

Deildarstjóri:  Dr. Gunnlaugur Björnsson
Með starfsaðstöðu:  Dr. Þorsteinn Sæmundsson

Háloftadeild rekur segulmælingastöð í Leirvogi í Mosfellssveit. Stöðinni var komið á fót árið 1957 og er hún hin eina sinnar tegundar hér á landi. Þar eru skráðar breytingar á segulsviði jarðar, bæði skammtímabreytingar af völdum rafagnastrauma frá sólu og hægfara breytingar sem stafa af hræringum í kjarna jarðar. Breytingarnar hafa meðal annars áhrif á stefnu áttavitanála, og langtímamælingar í Leirvogi eru því notaðar til að leiðrétta kort fyrir siglingar og flug. Niðurstöður mælinga sem skráðar eru á 10 sekúndna fresti eru sendar daglega til gagnamiðstöðvar í Kyoto í Japan og mánaðarlega til Boulder í Colorado.

Háloftadeildin sér einnig um rekstur tveggja stöðva til norðurljósarannsókna, en stöðvarnar eru í eigu Pólrannsóknastofnunar Japans. Önnur þeirra er á Augastöðum í Borgarfirði, en hin á Mánárbakka á Tjörnesi. Stöðvum þessum var komið upp 1983, en tækjabúnaður þeirra er í stöðugri þróun. Hið sama er að segja um segulmælingastöðina í Leirvogi.

Þá sér Háloftadeildin um rekstur tveggja ratsjárstöðva til rannsókna á rafhvolfi jarðar. Önnur þeirra er  við Stokkseyri en hin við Þykkvabæ. Fyrrnefnda stöðin var sett upp árið 1993 og er í eigu franskra rannsóknastofnana en sú síðarnefnda, sem tók til starfa 1995, er í eigu háskólans í Leicester í Englandi. Þessar stöðvar eru mikilvægur hlekkur í keðju slíkra stöðva sem nær bæði til norður- og suðurhvels jarðar. Markmiðið með keðjunni er að kortleggja áhrif sólar á rafhvolfið.

Almanak Háskólans er reiknað og búið til prentunar við Háloftadeild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is