Hlutu kennsluviðurkenningu VoN 2020

Hreggviður Norðdahl, fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskólans, og Anna Helga Jónsdóttir, dósent við Raunvísindadeild, voru heiðruð með kennsluviðurkenningu VoN á Sviðsþingi, föstudaginn 20. nóvember 2020. 

„Ég er djúpt snortinn og þakklátur fyrir þessa viðurkenningu á kennslustörfum mínum við Háskóla Íslands og met hana mikils. Það eru forréttindi að hafa svo lengi fengið að taka á móti stúdentum sem eru að taka sín fyrstu skref í námi í jarðfræði. Viðbrögð þeirra og vaxandi áhugi á jarðfræðinni eru þó líklega mesta og besta viðurkenningin sem kennara getur hlotnast,“ segir Hreggviður.

„Ég er einstaklega þakklát fyrir þessa viðurkenningu og gæti ekki hugsað mér skemmtilegri vinnu. Að fá að vinna með okkar frábæru nemendum og með besta samstarfsfólki sem hægt er að hugsa sér er ómetanlegt. Ég legg mikla vinnu í kennsluhluta starfsins og því er sérstaklega gaman að fá þessa viðurkenningu,“ segir Anna Helga.

Langur og farsæll ferill

Í umsögn kennslunefndar um Hreggvið Norðdahl segir m.a. að hann eigi að baki langan og farsælan feril í kennslu við Háskóla Íslands. „Hann hóf störf fyrst sem stundakennari í jarðfræði við Raunvísindadeild árið 1983, sama ár og hann lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Lundi. Árið 1985 var hann ráðinn sem sérfræðingur á jarðfræðistofu Raunvísindastofnunar, og gegnir nú stöðu fræðimanns við Jarðvísindastofnun. Samhliða rannsóknum og fræðistörfum sínum hefur Hreggviður allan tímann sinnt kennslu í jarðfræði af mikilli alúð, bæði á grunnstigi og meistarastigi.

Í umsögninni segir einnig að sem kennari sé Hreggviður prýddur mörgum og góðum kostum. „Um það geta nokkrar kynslóðir grunnnema og meistaranema í jarðfræði borið vitni um. Hann er umhyggjusamur gagnvart nemendum en jafnframt mjög áhugasamur um sín fræði og smitar þeim áhuga auðveldlega til nemenda sinna, jafnt í kennslustofunni sem í vettvangsferðum, þar á meðal í hinni árvissu Suðurlandsferð sem margir fyrrum nemenda hans minnast með þakklæti. Niðurstöður kennslukönnunar sýna ár eftir ár hversu vel nemendur kunna að meta störf hans. Hreggviður hefur tekið virkan þátt í mótun námsins á undanförnum árum. Hann hefur fylgst vel með í þróun kennsluhátta og tileinkað sér nýjungar á því sviði.“

Hreggviður sat í kennslunefnd Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um árabil og tók þar virkan þátt í samtali um kennslumál á sviðinu.

Einstaklega vel liðin

Í umsögn kennslunefndar um Önnu Helgu Jónsdóttur segir m.a. að hún sé afar farsæll kennari og hafi verið um árabil. „Hún lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2015. Um svipað leyti var hún ráðin í stöðu lektors við Raunvísindadeild, og til að sinna kennsluþróun á sviðinu, en hafði fram að þeim tíma sinnt stundakennslu. Anna Helga hefur kennt fjölmörg námskeið í tölfræði og stærðfræði fyrir nemendur á öllu Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Hún er einstaklega vel liðin af nemendum og samstarfsfólki.“

Anna Helga er auk þess annar tveggja höfunda vinsællar kennslubókar, Tölfræði frá grunni. „Hún er og hefur verið ötull brautryðjandi í nýsköpun og nútímalegum kennsluháttum og er aðal driffjöður náms í hagnýtri tölfræði á meistarastigi. Hún hefur haft yfirsýn um framkvæmd stöðumats  í stærðfræði á fyrsta ári og þjónað í nefndum á vegum Menntamálaráðuneytisins til þess að meta stöðu og þarfir stærðfræðimenntunar á landinu. Hún hefur einnig komið að þróun á móttöku nýnema við Verkfræði- og náttúruvísindasviðs með það í huga að gefa þeim tækifæri til að efla þekkingu sína og fá betri innsýn í þá hæfni sem þau þurfa að búa yfir áður en þau hefja nám við sviðið og þá sérstaklega þar sem raunvísindi spila stóran þátt í uppbyggingu náms.“

Anna Helga var formaður Kennslunefndar VoN um nokkurra ára skeið og stýrði störfum nefndarinnar við góðan orðstýr. Auk þess sat hún fyrir hönd sviðsins í Kennslumálanefnd Háskóla Íslands. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is