Ofarlega á heimsvísu í raunvísindum

„Það er ánægjulegt og mikill heiður fyrir Raunvísindastofnun Háskólans, ekki síður en Háskólann sjálfan, að sjá nýjustu röðun á lista Times Higher Education, þar sem Háskólanum er m.a. raðað í 201.-250. sæti á sviði raunvísinda,“ segir Oddur Ingólfsson, stjórnarformaður Raunvísindastofnunar Háskólans.

Tímaritið Times Higher Education birti nýlega lista yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum og er Háskóli Íslands á níu listum tímaritsins og hefur aldrei verið á fleirum slíkum.

Sjá nánar frétt á vef Háskóla Íslands.

Raunvísindastofnun Háskólans var sett á fót árið 1966 og hefur frá upphafi hýst og hlúð að rannsóknum á sviði raunvísinda innan Háskóla Íslands. „Hlutverk hennar hefur verið að standa að uppbyggingu rannsókna á þessu sviði og tryggja að Ísland standi öðrum þjóðum ekki að baki í raunvísindum, þar með talið stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði, jarðfræði og jarðeðlisfræði.“ 

Oddur segir styrk á sviði raunvísinda vera undirstaða þróunar og nýsköpunar í atvinnulífi og ekki síður mikilvægur hluti menningar og almennrar þekkingar þjóðar sem vill standa öðrum þjóðum jafnfætis. „Það er því ánægjuleg staðfesting á styrk Raunvísindastofnunar Háskólans og á því að hún sinni hlutverki sínu þegar Háskóla Íslands er raðað á meðal 201.-250. sterkustu háskóla heims á þessu sviði.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is