Doktorsvörn í eðlisfræði - Hamidreza Hajihoseini

Hamidreza Hajihoseini ver doktorsritgerð sína í eðlisfræði mánudaginn 11 maí næstkomandi.

Vörnin fer fram í hátíðarsal Aðalbyggingar og hefst kl.13:00.

Einungis 45 manns geta verið í salnum á meðan dokorsvörninni stendur en vörninni verður streymt. Nánari upplýsingar um streymið má finna á hi.is þegar nær dregur.

Heiti ritgerðar: Háaflspúlsuð segulspæta: Áhrif æstæðs segulsviðs á ræktunarhraða og jónunarhlutfall (High Power Impulse Magnetron Sputtering (HiPIMS): The effect of the stationary magnetic field on the deposition rate and ionized flux fraction)

Andmælendur: Dr. Peter Kelly, prófessor og stjórnandi Surface Engineering Group og yfirmaður Advanced Materials and Surface Engineering Research Centre, Manchester Metropolitan University,  Bretlandi.
Dr. Matjaž Panjan, fræðimaður við Jozef Stefan Institute, Ljubljana, Slóveníu

Leiðbeinandi: Dr. Jón Tómas Guðmundsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:

Dr. Daniel Lundin, prófessor við Plasma och ytbeläggningsfysik, Institutionen för fysik, kemi och biologi (IFM), Háskólanum í Linköping, Svíþjóð.
Dr. Snorri Þorgeir Ingvarsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn stýrir: Dr.Oddur Ingólfsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Háaflspúlsuð segulspæta (HiPIMS) er fremur nýleg aðferð til að rækta þunnar húðir og gefur þéttar húðir með mjög slétt yfirborð. Þetta er gert með því að framkalla hátt jónunarhlutfall spættra agna. Þessi miklu gæði þessara ræktuðu húða eru á kosnað ræktunarhraða, sem hefur í komið í veg fyrir víðfeðma notkun (HiPIMS) í iðnaði. Hér eru kynntar niðurstöður tilrauna þar sem áhrif sístæðs segulsviðs á ræktunarhraða, jónunarhlutfall, og eiginleika þunnra húða sem eru ræktaðar með háaflspúlsaðri segulspætu. Vanadín, vandín nítríð og nikkel-þunnhúðir eru ræktaðar með háaflspúlsaðri segulspætu þar sem ýmsum eiginleikum afhleðslunnar var breytt, þar með talið breytingu á styrk hremmisegulsviðs, þrýstingi vinnugassins, spennu sem lögð er á undirlagið og horni milli undirlags og skotmarks. Fyrir hvert þessara tilfella eru eiginleikar húðar sem ræktaðar eru með háflspúlsaðri segulspætu bornir saman við tilsvarandi húðir sem ræktaðar eru með dc segulspætu við sömu skilyrði. Til þess að fá þennan samanburð var beitt ýmsum greiningaraðferðum til að ákvarða eðlismassa, hrjúfleika yfirborðs,samsetningu húðar, formgerð, segul-og rafeiginleika ræktaðra húða. Í síðari hluta verkefnisins var notað breytilegt segulsvið til að rannsaka kerfisbundið áhrif segulsviðs á eiginleika háaflspúlsaðrar segulspætu. Fyrir sérhverja formgerð segulsviðsins voru ræktunarhraði og jónunarhlutfall mæld fyrir nokkrar staðsetningar framan við skotmarkið til að fá mynd af dreifingu hlutlausra og jónaðra agna í rúminu. Hér voru einnig mældur ræktunarhraði og jónunarhlutfall út til hliðanna, samsíða skotmarkinu fyrir bæði háaflspúlsaða og dc segulspætu. Þetta var gert til að skoða tengsl milli aukins flutnings agna til hliðanna í háaflspúlsaðri segulspætu sem oft er nefnd sem ein ástæða lægri ræktunarhraða í háaflspúlsaðri samanborið við dc segulspætu.

Um doktorsefnið

Hamidreza Hajihoseini fæddist í Yazd í Íran 1988. Hann lauk B.Sc. prófi í rafeindaverkfræði (2011) og M.Sc. prófi í hálfleiðaratólum (2014) í Íran. Hann hóf nám til doktorsprófs í eðlisfræði við Háskóla Íslands 2016. Á meðan á doktorsnáminu hefur staðið hefur hann birt níu ritrýndar greinar og að auki flutt fjölda fyrirlestra og kynnt veggspjöld á alþjóðlegum ráðstefnum. Hamidreza hlaut Erasmus+ styrki til skiptináms 2017 og 2018, til rannsókna við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi og Université Paris-Sud í Orsay, Frakklandi. Hann býr í Reykjavík með eiginkonu sinni Sahar Rahpeyma.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is