Styrkir úthlutaðir úr Rannsóknasjóði Rannís

Í gær, miðvikudaginn 15. janúar, var úthlutað úr Rannsóknarsjóði Rannís til nýrra rannsóknaverkefna fyrir árið 2020. Alls bárust 382 gildar umsóknir og voru 55 þeirra styrktar, þar af tíu tengdar Raunvísindastofnun.

Tvær umsóknir fengu öndvegisstyrki upp á tæplega 97 milljónir samtals og var önnur þeirra frá Hannesi Jónssyni hjá Raunvísindastofnun. Verkefni hans, sem ber heitið Kerfisbundin hönnun á rafefnahvötum fyrir sértæka afoxun CO2 í vistvænt eldsneyti, hlaut styrk upp á 45.450.000 kr. fyrir árið 2020. Samtals hljóðar styrkurinn þó upp á tæpar 150 milljónir og er til þriggja ára.

Í verkefni sínu segist Hannes vera að þróa tækni til að framleiða eldsneyti og hráefni til efnaiðnaðar á sjálfbæran hátt, með því að nota CO2 sem kolefnisuppsprettu. „Þar verða m.a. efnahvatar þróaðir fyrir rafefnaafoxun CO2 til að mynda kolvetni og alkóhól (HCA) á sértækan hátt. Þetta verkefni verður unnið í samvinnu við tilraunahópa í Bandaríkjunum, Sviss, Noregi og Rúmeníu og þeir hvatar sem best koma út í reikningunum verða prófaðir á tilraunastofum. Verkefnið tengist H2020 verkefni þar sem hugbúnaður er þróaður fyrir hönnun misleitra efnahvata með tölvureikningum.“

Alls bárust 211 umsóknir vegna verkefnastyrkja og fengu 30 þeirra styrki, þar af eru sjö þeirra með aðsetur hjá Raunvísindadeild. Um er að ræða verkefni undir stjórn Ivan Shelykh, Jesus Zavala Franco, Snorra Þórs Sigurðssonar, Unnars Bjarna Arnalds, Younes Abghoui, Gro Birkefeldt Moller Pedersen og Péturs Orra Heiðarssonar.

Af 58 umsóknum sem bárust um nýdoktorsstyrki fengu níu styrki, þar af ein frá Raunvísindastofnun og einn doktorsnemi Raunvísindastofnunar fékk styrk. Það voru þeir Tobias Christian Duerig og  Benedikt Orri Birgisson.

Nánari upplýsingar um úthlutun úr Rannsóknasjóði má finna á heimasíðu Rannís.

Verkefni Hannesar Jónssonar hlaut styrk upp á 45.450.000 kr. fyrir árið 2020.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is