Háskóli Íslands er í sæti 176-200 á sviði raunvísinda

Háskóli Íslands er í sæti 176-200 á sviði raunvísinda samkvæmt nýjum listum sem tímaritið Times Higher Education birti nýlega.
 
Frammistaða háskólans á sviði raunvísinda er metin út frá árangri í stærðfræði, tölfræði, eðlisfræði, stjarneðlisfræði og efnafræði en einnig jarðvísindum, umhverfisfræði og haffræði. Út frá mælikvörðum Times Higher Education raðast Háskóli Íslands í sæti 176 til 200 á sviði raunvísinda en rúmlega 960 háskólar komast á listann að þessu sinni.
 
Háskóli Íslands hefur í haust komist á alls sex lista tímaritsins yfir bestu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum sem undirstrikar alhliða styrk skólans á alþjóðavettvangi.
 
Mat tímaritsins á frammistöðu skólanna tekur til þrettán þátta í starfi þeirra, m.a. rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.
 
Times Higher birti enn fremur fyrr í haust lista yfir bestu háskóla heims, þar sem tekið er tilliti til heildarárangurs skólanna, og þar reyndist Háskóli Íslands vera í 251.-300. sæti. Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistum heims á þessu sviði. Hinn er er Shanghai-listinn svokallaði en þess má geta að Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á hann á síðasta ári. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is