Efnasmíðar byggðar á heilnæmi hákarlalýsis

Lífvirk efni sem haft geta góð áhrif á heilsu manna eru meðal hugðarefna Guðmundar G. Haraldssonar, prófessors í efnafræði, en rannsóknir hans miða að því að tvinna tvö eða fleiri slík efni saman.

„Verkefnið sem ég vinn nú að snerist í upphafi um að einangra lífvirk eterlípíð, sem eru eitt af afbrigðum glyserólafleiddra fituefna og finna má í miklum mæli í lýsi hákarla og skyldra brjóskfiska, og tengja inn á þau ómega-3 fitusýrur sem einkenna fitu í sjávarfangi og fiski. Þannig var hugmyndin að tvinna saman heilsusamleg áhrif ómega-3 fitusýra og eterlípíðanna í einni og sömu sameindinni. Síðan höfum við fengist við efnasmíðar á þessum efnum á hreinu formi og það gefur okkur möguleika á að bæta þriðja mögulega heilsuþættinum í einu og sömu sameindina en það tengist stjórnun á staðsetningu einstakra fitusýra á glyseról-burðargrindinni,“ útskýrir Guðmundur, en glýseról er grunneining í algengri fitu á borð við þríglyseríð, eterlípíð og fosfólípíð. Aðspurður um kveikjuna að verkefninu segist Guðmundur ávallt hafa haft mikinn áhuga á lífvirkum náttúruefnum sem einkenna íslenskt lífríki og smíði slíkra efna með það fyrir augum að láta kanna lífvirkni þeirra. „Í þessum efnum er hákarlinn afar spennandi og fyrir nokkrum áratugum var litið á hann sem skepnu þar sem krabbamein eru fátíð. Einnig fannst mér skírskotun afa á Knerri í Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar í hákarlalýsi alltaf heillandi þar sem borin er saman föst fita sauðkindarinnar, sem storknar í æðakerfinu, við fljótandi fitu hákarlalýsisins,“ segir Guðmundur enn fremur. Guðmundur segist þegar í upphafi ferils síns hafa farið að fást við efnasmíðar úr íslenskum náttúruefnum og ómega-3 fitusýrum og rann- sóknirnar nú séu eðlilegt framhald þess. „Verkefnið hleður hratt utan á sig. Við erum komin með ótal afbrigði þessara efna í efnasafni sem telur vel yfir 200 efni,“ segir hann.

Guðmundur bendir aðspurður á að afrakstur verkefna sem þessara sé afar fjölþættur, þar á meðal ritrýndar fræðigreinar, bókakaflar og bæði meistara- og doktorsverkefni. „Þá eigum við alfarið eftir að skima efnasöfn þessara efna með tilliti til líf- og lyfjavirkni og komi þar eitthvað áhugavert í ljós getur þetta mögulega orðið undirstaða sérhæfðs efna- eða lyfjaiðnaðar í landinu til hagsbóta fyrir samfélagið allt,“ segir Guðmundur.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is