Vill hreinsa drykkjarvatn

„Ofnotkun á tilbúnum áburði í landbúnaði hefur orðið til þess að magn nítrats (NO3 -) í lífríkinu hefur aukist til muna. Nú er svo komið að nítrat er einn helsti mengunarvaldur grunnvatns og því er jafnvel haldið fram að það sé skaðlegri mengunarvaldur en koltvísýringur.“ Þetta segir Anna Louise Garden nýdoktor sem nú þróar leiðir til að hreinsa nítrat úr drykkjarvatni en hún hlaut nýverið þriggja ára styrk frá Rannsóknasjóði Íslands og Nýsköpunarsjóði námsmanna til rannsóknarinnar.

Í rannsókninni notar hún tölvuútreikninga til að finna hvaða stærð, form og atómuppröðun efnahvata í nanóstærð leiðir til hröðustu breytingar nítrats í köfnunarefni án þess að aðrar hættulegar aukaafurðir myndist. Í kjölfarið er ákvarðað hvaða efnahvati hentar best fyrir hreinsun drykkjarvatns.

Anna er frá Nýja-Sjálandi og hún segir að þar sé mikill landbúnaður líkt og á Íslandi. „Ein afleiðing landbúnaðarins er mikið magn afgangsnítrats í grunnvatni. Sökum þessa er ekki hægt að baða sig í mörgum ám Nýja-Sjálands og á Íslandi eru sjaldgæfar þörungategundir, eins og kúluskítur, að hverfa því magn nítrats og fosfats í vatni er of mikið,“ segir Anna. „Ljóst er að með auknum landbúnaði og auk- inni þörf fyrir drykkjarvatn eykst einnig þörfin á að finna aðferð sem hreinsar nítrat úr vatni á skilvirkan hátt,“ segir Anna. „Þess vegna er þessi rannsókn mjög mikilvæg og verði hún árangursrík mun það leiða til nýrrar og skilvirkrar aðferðar sem breytir nítrati í meinlaust niturgas. Þetta myndi útrýma hinum skaðlegu áhrifum sem aukning nítrats veldur og hefur svo slæm áhrif á heilsu fólks og lífríkið.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is