Vill gera eldsneyti úr engu

„Orkan sem kemur frá sólinni og skellur á flatarmál á stærð við Sahara-eyðimörkina myndi nægja til að koma í staðinn fyrir alla aðra orkugjafa í heiminum. Vandamálið er hins vegar að finna efni sem getur gleypt nógu mikið af sólarljósinu og umbreytt raforkunni í efnaorku.“ Þetta segir Egill Skúlason, lektor og hugvitsmaður við Háskóla Íslands. Þetta kann að hljóma gríðarlega flókið en það sem Egill hyggst gera er í raun að umbreyta gróðurhúsalofttegundinni koltvísýringi í eldsneyti. Egill hefur lagt stund á tölvureikninga sem miða að því að breyta koltvísýringi, sólarljósi og vatni í eldsneyti, eins og metanól eða metan.

Það á vel við að segja að þetta viðfangsefni sé mjög heitt. „Margir hópar úti um allan heim eru að glíma við svipaðar hugmyndir til að mæta olíuskorti en olían er að klárast á heimsvísu. Viðfangsefnið lítur vel út, þetta er hægt í dag, en það verður að þróa miklu betri efni til að fanga sólarorkuna og nýta hana til að knýja þau efnahvörf sem breyta koltvísýringi í nýtanlegt eldsneyti,“ segir Egill.

„Við höfum reynt að skilja af hverju kopar er eini hreini málmurinn sem getur hvatað þetta efnahvarf. Um þessar mundir erum við byrjuð að leita að efnum með tölvureikningunum sem hugsanlega gætu bætt núverandi tilraunaniðurstöður. Við erum því að leita að hagkvæmari aðferðum til að framleiða búnað
sem býr til eldsneyti úr sólarljósinu. Þar erum við að skoða efni sem geta bæði gleypt sólarljósið
og hvatað efnahvarf koltvísýrings í eldsneyti, en einnig efni sem hafa lítið af málmi eða eru jafnvel alveg laus við málmatóm, sem eru oft dýr og af skornum skammti. Þar erum við að skoða nýstárleg efni eins og grafín og kolrör, sem eru mikið notuð í nanótækni. Með því myndum við þjóna öllu mannkyninu,“ segir Egill.

Í dag sleppur koltvísýringur út í andrúmsloftið og það veldur, að dómi vísindamanna, hlýnun jarðar. „Ef við gætum fangað koltvísýring sem kemur t.d. frá jarðhitaverum eða álverum og breytt honum í eldsneyti til að setja á bíla- og skipaflotann, myndi jörðin græða einn hring í kolefnishringrásinni. Hér sláum við því tvær flugur í einu höggi: Við minnkum gróðurhúsaáhrifin og framleiðum eldsneyti nánast úr engu.“ 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is