Varar við jarðskjálftum og eldgosum

Yfirleitt virðist okkur sem yfirborð jarðar sé algerlega kyrrt undir fótum okkar en í raun er ekki svo. Á degi hverjum verður fjöldi mælanlegra jarðskjálfta á Íslandi. Í jarðskorpunni er enda spenna, stundum staðbundin, en líka víðtæk spenna þar sem gríðarleg öfl togast á, ekki síst vegna flekaskila. Norður-Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn leita hvor í sína áttina og orkan sem losnar veldur jarðskjálftum. Og stundum verða jafnvel eldgos.

Áhugi Karolinu Lucju Michalczewsku frá Póllandi beinist öðru fremur að jarðskorpu- hreyfingum og jarðhræringum, sem eru stundum undanfari eldsumbrota. „Verkefnið mitt snýst um að fylgjast með og skilja jarðskorpuhreyfingar á Íslandi,“ segir Karolina og horfir yfir Mýrdalsjökul en þar undir sefur Katla, eitt vaktaðasta eldfjall í heimi.

Rannsókn Karolinu beinist þó mest að Krísuvíkursvæðinu á miðjum Reykjanesskaga. Jarðskjálftavirkni og eldvirkni á Reykjanesi er jafnan sett í samband við áðurnefnd flekaskil sem liggja eftir skaganum endilöngum. „Frá 2009 hefur land risið og hnigið með nokkuð reglubundnum hætti á Krísavíkursvæðinu. Athuganir á breytingum á yfirborði jarðar veita okkur mjög nákvæm gagnasöfn sem við getum svo nýtt í stærðfræðilíkön til að spá fyrir um mögulegar jarðskorpuhreyfingar,“ segir Karolina.

Samanburður á gögnum og útreikningar í líkönum veita, að hennar sögn, innsýn í aðstæður undir yfirborðinu.

„Við mælingar hér á Mýrdalsjökli eru notaðar mikilvægar jarðskjálftamælingar og einnig er stuðst við samfelldar GPS-mælingar. Þá eru einnig svokallaðar InSAR-athuganir gerðar í hlíðum eldstöðvarinnar. Þessar mælingar eru líka gerðar í Krísuvík. GPS- og InSAR-mælingar veita upplýsingar um yfirborðshreyfingarnar. Með GPS- tækninni eru fáar staðsetningar mældar mjög nákvæmlega en InSAR-mælingarnar gefa betri heildarupplýsingar um hreyfingar stærri hluta jarðskorpunnar. Þegar þessar tvær aðferðir eru samnýttar gefa þær hugmynd um eðli breytinga og möguleg tengsl þeirra við uppsöfnun kviku á miklu dýpi og hreyfingar á jarðskjálftabeltum.“

Karolina er öðrum þræði að kanna hvort eldvirkni sé að hefjast á ný á Reykjanesi. Hún segir því mikilvægt að deila niðurstöðum rannsóknanna með almenningi. „Þótt eldsumbrot séu fyrir okkur ægifögur birtingarmynd síbreytilegrar náttúru, og þau séu heillandi fyrirbæri til að rannsaka, þá geta þau haft alvarlegar afleiðingar fyrir Íslendinga og ferðamenn sem hingað koma. Landið sem nú er á hreyfingu er á svæði sem er vinsælt hjá ferðamönnum. Hér er ég ekki bara að tala um eldfjöllin á Reykjanesi heldur líka jarðhitasvæðin þar og landsvæði þar sem jarðskjálftahætta er fyrir hendi. Við vinnum mjög náið með Veðurstofu Íslands og Almannavörnum og niðurstöður rannsókna okkar gagnast þeim í viðbragðsáætlunum og auka möguleika þeirra á að vara almenning við ef hætta steðjar að.“

Leiðbeinandi: Sigrún Hreinsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is