Stöðugar stakeindir fyrir lífeðlisfræðilegar rannsóknir

Öndvegisverkefni Snorra Þórs Sigurðssonar og samstarfsmanna hans, Stable radicals for biophysical studies fjallar um efnasmíðar á stakeindum og notkun þeirra í lífeðlisfræðilegum mælingum í segulsviði, bæði með kjarnsegulgreiningu.

Verkefnið beinist að smíði og notkun stöðugra stakeinda fyrir lífeðlisfræðilegar (e. biophysical) rannsóknir á sviði rafeindasegulspuna (EPR) og kjarnsegulspuna (NMR). Eitt viðfangsefnið er notkun staðbundinna spunamerkinga til rannsókna á byggingu og hreyfingum RNA sameinda, m. a. tetrasýklín aptamersins og púrín ríbórofa sem báðir bindast smáum lífrænum sameindum. Upplýsingar um fjarlægð og afstöðu spunamerkja í RNA verða fengnar með púlsaðri EPR litrófsgreiningu (e. PELDOR). Að auki verða langar fjarlægðir í RNA sameindum ákvarðaðar með NMR spektróskópíu og spunamerkjum, sem valda fjarlægðabundinni aförvun á NMR merkjum. Rannsóknirnar notast við stífa spunamerkið Çm, nýlega smíðað á rannsóknastofu okkar. Einnig verður haldið áfram við að þróa betri spunamerkingaraðferðir, einkum þær sem byggja ekki á samgildum tengjum.

Annað viðfangsefni rannsóknarinnar er smíði nítroxíð- og kolefnis-stakeindapara í því augnamiði að auka næmni NMR mælinga með notkun hreyfifræðilegrar skautunar (e. DNP). Með DNP er næmni NMR aukin með flutningi rafeindaskautunar yfir á kjarna sem gerist með kúplun rafeinda(r) og kjarna. Nýjar stakeindir sem valda DNP aukningu geta haft gífurleg áhrif á þetta ört vaxandi svið, þ. m. t. NMR mælingar á líffræðilegum sameindum, örögnum og yfirborðum efna, auk segulómunar á líffræðilegum vefjum og lífverum.

Dæmi um stöðugar stakeindir.
A. Trítýl kolefnisstakeind.
B. Nitroxið stakeind.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is