Samþætting fornveðurvísa og líkanreikninga til skilnings á snöggum loftslagsbreytingum í norðanverðu Norður-Atlantshafi

Verkefni Áslaugar Geirsdóttur og samstarfsmanna hennar (Gifford H. Miller, Anne Jennings, Simon Belt, Gwenn Flowers, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Helge Drange, Finnur Pálsson, Eyjólfur Magnússon, Helgi Björnsson, Alexander Jarosch) hlaut Öndvegisstyrk Rannís árið 2014.

Verkefnið miðar að samþættingu fornveðurvísa og líkanreikninga til skilnings á snöggum loftslagsbreytingum í norðanverðu Norður-Atlantshafi. Verkefnið er alþjóðlegt, unnið í samvinnu jöklajarðfræðinga, jöklafræðinga, hafsbotnsjarðfræðinga og haffræðinga. 

Staðsetning Íslands, á mótum kaldra og hlýrra loft- og hafstrauma í miðju Norður-Atlantshafi, ásamt hraðari setupphleðslu, gerir það að verkum að lesa má umhverfisbreytingar tengdar veðurfarssveiflum úr veðurvísum í stöðuvatna- og sjávarseti með meiri nákvæmi en gengur og gerist.

Markmið þessa alþjóðlega verkefnisins er að auka skilning á eðli endurtekinna, snöggra tímabila loftslagskólnunar (kaldra sumra og framrásar jökla), sem talið er að hafi átt sér stað á norðanverðu Norður-Atlantshafi á síðustu 8000 árum. Norðurslóðir hafa verið miðpunktur umfjöllunar um núverandi loftslagsbreytingar, vegna sýnilegra mögnunaráhrifa kaldari svæða við hitabreytingum undanfarinna áratuga. Nútíminn (síðustu 11500 árin) er tímabil með svipuð jaðarmörk í loftslagi og á okkar dögum, að fráskildum styrk gróðurhúsalofttegunda. Með alþjóðlegu átaki rannsókna á sviði fornloftslags-, jökla- hafís- og veðurfræði er ætlunin að draga fram sögu Drangajökuls og Langjökuls á nútíma og varpa nýju ljósi á þekktar, óreglulegar loftslagssveiflur og hlutverk hafíss í þeim sveiflum.

Niðurstöður verkefnisins munu betrumbæta núverandi loftslagslíkön Norðurslóða. Sú óvissa sem ríkir um áhrif snöggra loftslagsbreytinga á nútíma þjóðfélög kallar á frekari rannsóknir á eðli og orsökum skyndilegra breytinga í veðurfari fyrri tíma til frekari undirbúnings þjóðfélaga fyrir óvissa loftlagsframtíð.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is