Rannsóknir á jarðhitakötlunum á Mýrdalsjökli

Katla í Mýrdalsjökli er ein þeirra eldstöðva sem menn óttast hvað mest að taki að gjósa án mikils fyrirvara. Líklegt er að öflugt sprengigos verði þá í Kötluöskju með miklu öskufalli sem án vafa hefði mikil áhrif á mannlíf nærri fjallinu auk flugumferðar. Sumir sem búa nærri Mýrdalsjökli horfa af þessum sökum til Kötlu með óttablandinni virðingu.
 
Í haust urðu miklar jarðskjálftahrinur í öskjunni í Kötlu og urðu margir skjálftar yfir þrjá á Richters-kvarða. Fór þá eðlilega um marga en síðast gaus í fjallinu árið 1918 og urðu þá mikil hamfaraflóð samfara gosinu og öskustrókar teygðu sig hátt til himins. Drjúgur hluti af Mýrdalssandi hvarf þá undir jökulvatn og búfénaður drapst. Þegar hlaupið rénaði kom í ljós tjón á gróðri og fjöldi gríðarstórra ísjaka var einnig á sandinum sem mikla krafta þurfti til að flytja.
 
Katla tilheyrir þeim eldstöðvum sem hvað mest eru vaktaðar af vísindamönnum en það er m.a. gert til að draga úr hættu og tjóni á mannvirkjum sökum vatnsflóða. Eyjólfur Magnússon, rannsóknasérfræðingur á Raunvísindastofnun, stýrir nú rannsókn á jarðhitakötlunum á Mýrdalsjökli en ætlun hans er að skilja betur eðli katlanna og sér í lagi hvað valdi því að sumir þeirra taka stundum upp á því að safna verulegu vatnsmagni. „Þetta vatnsmagn getur skilað sér í snöggum öflugum jökulhlaupum. Í verkefninu verður reynt að varpa nýju ljósi á hegðun katlanna,“ segir Eyjólfur. „Við viljum vita hverjir safna vatni og yfir hversu langan tíma en líka sjá hvort sírennsli er frá öðrum. Við viljum líka kanna hvað það er í umhverfi katlanna sem ræður mestu þar um.“
 
Eyjólfur segir að hlaupið í Múlakvísl 2011 og áþekkt hlaup sem kom í Jökulsá á Sólheimasandi árið 1999 séu kveikjurnar að rannsókninni. „Bæði hlaupin komu af stað rannsóknum sem verkefnið okkar, Katla kalda, spratt upp úr.“
 
Eyjólfur segir að verkefnið sé nýhafið og því sé lítið komið af niðurstöðum. „Gögn sem aflað var í tengslum við verkefnið nýttust þó þegar mikil skjálftavirkni var í Kötlu núna í haust. Þau sýndu að engar óeðlilegar breytingar höfðu orðið í jarðhitakötlunum í aðdraganda hrinunnar.“
 
Eyjólfur segir að aukinn skilningur á jarðhitakötlum geti nýst til að draga úr eða fyrirbyggja tjón vegna jökulhlaupa undan þeim. „Rannsóknin eykur auk þess skilning á vatnafari jökla, en mörgu er enn ósvarað innan þess geira jöklafræðinnar.“
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is