Innrauðir skynjarar á nanóskala

Pauline Servane Renoux, doktorsnemi við Raunvísindadeild

„Við höfum þróað óvenjulega lítinn innrauðan nanóskynjara sem virkar jafn vel og stærri skynjarar af sömu gerð,“ segir Pauline Renoux, doktorsnemi í eðlisfræði. „Innrauðir skynjarar eru notaðir víða, allt frá hversdagslegum athöfnum til ferla í iðnaðarframleiðslu. Það er auðvelt að framleiða þá og þeir þarfnast ekki kælingar við notkun.“

Pauline kom til Háskóla Íslands frá Frakklandi í starfsnám á meistarastigi árið 2008. Þá kynntist hún innrauðum hiturum, þ.e. smásæjum innrauðum ljósgjöfum, og ákvað í framhaldi af því að skoða þetta viðfangsefni betur í doktorsnámi sem hún hóf árið 2009. „Ljósgjafarnir sem við rannsökuðum 2008 reyndust vel þannig að okkur lék forvitni á að vita hvort líka væri hægt að nota þá sem skynjara,“ segir hún.

Pauline vinnur nú með innrauða skynjara sem gerðir eru úr mjög þunnum platínuhúðum, aðeins 50 nanómetrar að þykkt, sem skilgreinir þá sem nanótækni. „Tilgangurinn með doktorsverkefni mínu er að lýsa eiginleikum og bæta skilvirkni skynjaranna. Rannsóknirnar fara fram bæði í hreinherbergi í kjallara VR-III, þar sem sýnin eru búin til, og á rannsóknastofu okkar þar sem eiginleikar þeirra eru mældir,“ segir Pauline.

Nanóvísindi eru vinsælt viðfangsefni í vís- indaheiminum um þessar mundir enda eitt hið áhugaverðasta sem er að gerast á þeim vettvangi. Lögmál eðlisfræðinnar hegða sér öðruvísi á þessum örsmáa skala en við upplifum í kringum okkur. Þetta er ástæðan fyrir því að vísindasamfélagið er uppnumið og spennt fyrir rannsóknum af þessu tagi. „Sjálf er ég mjög spennt að taka þátt í þessu. Rannsóknirnar hafa til þessa hjálpað okkur að skilja hvaða eðlisfræðilegir eiginleikar valda þessum óvenjugóðu skynjunareiginleikum sem við sjáum. Okkur hefur tekist á grundvelli þessa að bæta næmi þeirra með breyttri hönnun,“ segir Pauline að lokum.

Leiðbeinandi: Snorri Þorgeir Ingvarsson, prófessor við Raunvísindadeild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is