Hljómkviður eldvirkninnar

Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindadeild og Jarðvísindastofnun Háskólans

Páll Einarsson er með reyndari jarðvísindamönnum landsins og hefur tekið þátt í ítarlegum rannsóknum á fjölda jarðskjálfta og eldsumbrota á Íslandi og víðar. Þær sinfóníur sem þá eru leiknar af náttúrunni sjálfri láta vel í eyrum Páls en svo hagar til að hann er ekki einhamur þegar kemur að hljómkviðunum. Páll er menntaður í sellóleik og hljómfræði og grípur gjarnan í hljóðfærið þegar hann þarf hvíld frá amstri jarðvísindanna.

Segja má að Páll hlusti eftir hljómum jarðarinnar með aðstoð fullkominna tækja sem geta spáð fyrir um eldgos og jarðhræringar en ekki án túlkunar vísindamannsins. „Með haganlega staðsettum mælitækjum á Íslandi er hægt að fylgjast með ferlum í jarðskorpunni sem erfitt er að nálgast annars staðar. Hvert nýtt eldgos og nýr jarðskjálfti gefur því af sér gögn sem eru undirstaða rannsókna á eðli þessara fyrirbrigða. Við verðum vör við mikinn og vaxandi áhuga vísindamanna í öðrum löndum á niðurstöðum okkar.“

Páll segir að rannsóknaverkefni sín snúist flest um jarðskorpuhreyfingar og þau ferli sem þeim fylgja, orsakir og afleiðingar. „Þar á meðal eru flekarek, eldvirkni, jarðskjálftar, sprunguhreyfingar, hæðarbreytingar vegna rýrnunar jökla og margt fleira,“ segir Páll og brosir, en hann er einn af þeim sem fjölmiðlar leita stöðugt til þegar túlka þarf jarðhræringar eða eldgos.

Auk þess sem Páll er dugmikill kennari og afar vinsæll starfar hann á Jarðvísindastofnun ásamt öflugum rannsóknahópi sem vinnur náið saman. Páll á einnig í mjög virku samstarfi við aðrar stofnanir, bæði hérlendis og erlendis. Vissulega má segja að í Páli togist enn á tónlistin og jarðfræðin og sjálfsagt má fullyrða að þau átök eigi sér hlið- stæðu í þeim sem einkenna eðli þessa lands sem við byggjum: „Ísland er sérlega góður vettvangur fyrir rannsóknir í jarðvísindum. Landið liggur á flekaskilum og hér er auk þess einn af heitum reitum jarðarinnar. Nemendur háskólans njóta þess í náminu og taka mjög virkan þátt í rannsókn- unum, bæði í grunnnámi og framhaldsnámi.“

Áhugi Páls á jarðvísindum kviknaði þegar á unglingsárunum og á endanum varð tónlistin að láta í minni pokann. „Eldgosin í Surtsey, Öskju og Heklu áttu þar vafalaust stóran þátt. Surtseyjarráðstefnan 1967 dró að stóran hóp útlendra vísindamanna og efldi áhuga hérlendis á rannsóknum. Á sama tíma var flekakenningin að ryðja sér til rúms og fékk ég tækifæri til að taka þátt í fyrstu rannsókn á færslum flekanna sem hér var gerð,“ segir Páll.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is