Sigurður kjörinn í Bandarísku vísindaakademíuna

Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur og rannsóknaprófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans, hefur verið kjörinn heiðursmeðlimur í Bandarísku lista- og vísindaakademíuna (American Academy of Arts and Sciences) fyrir störf sín á sviði jarðvísinda.

Akademían er í senn samfélag sem ætlað er að verðlauna og fagna framúrskarandi vísindafólki, listamönnum og leiðtogum og leiðir saman vísindamenn og sérfræðinga úr ólíkum vísinda-, lista- og starfsgreinum til að takast á við áskoranir sem snerta samfélög um allan heim. Akademían var sett  á laggirnar árið 1780 og meðal þeirra sem kjörin hafa verið í akademíuna má nefna Benjamin Franklin, George Washington, Margaret Mead, John F. Kennedy, Martin Luther King Jr., Mörthu Graham, Georgia O’Keeffe og Madeleine Albright.

Alls eru 250 félagar (https://www.amacad.org/new-members-2024) á 31 sérfræðisviði teknir inn í Bandarísku lista- og vísindaakademínuna í ár, langflestir frá Bandaríkjunum, en þeirra á meðal eru Pulitzer-verðlaunahafinn Jhumpa Lahiri, leikarinn og leikstjórinn George Clooney og Tim Cook, forstjóri Apple. Sigurður Reynir er í hópi 25 alþjóðlegra heiðursmeðlima sem teknir eru inn að þessu sinni og bætist þar í hóp ekki ómerkari erlendra akademíumeðlima en Charles Darwin, Albert Einstein, Wislawa Szymborska, Gabriel Garcia Márquez og Nelson Mandela.

Sigurður Reynir er í góðum hópi fræðimanna í flokki stjörnufræði, stjarneðlisfræði og jarðvísinda sem teknir hafa verið inn í Bandarísku vísindaakademíuna. Hann er þekktastur fyrir forystuhlutverk sitt innan CarbFix-verkefnisins en hann gegndi formennsku í vísindaráði þess frá upphafi þess 2006 til 2020. Verkefnið snýst um að binda koltvíoxíð í basaltjarðlögum og hefur árangur þess við niðurdælingu koltvíoxíðs við Hellisheiðarvirkjun og víðar vakið heimsathygli og hlotið ýmsar viðurkenningar.

Sigurður Reynir margverðlaunaður fyrir störf sín

Sigurður Reynir og rannsóknarhópur hans hefur í rannsóknum sínum lagt sérstaka áherslu á hringrás kolefnis á jörðinni, bindingu kolefnis í bergi og áhrif eldgosa á loft, vatn og lífverur. Eftir hann liggja yfir 150 vísindagreinar í alþjóðlegum tímaritum auk bóka sem tengjast jarðvísindum, nú síðast bókina „Carbon Capture and Storage: From Global Cycles to Global Solutions“ ásamt Eric H. Oelkers, rannsóknarstjóra við CNRS stofnunina við Paul Sabatier háskóla í Toulouse í Frakklandi og gestaprófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands (https://www.geochemicalperspectives.org/online/v12n2/).

Sigurður Reynir er margverðlaunaður fyrir störf sín. Hann hefur verið kjörinn félagi (e. Fellow) hjá Alþjóðasamtökum í jarðefnafræði auk bandarísku og evrópsku samtakanna á sama sviði. Þá hlaut hann Clair C. Patterson verðlaun Jarðefnafræðisamtaka Bandaríkjanna árið 2018 sem eru  ein af virtustu viðurkenningum sem veittar eru í jarðefnafræði. Enn fremur hlaut Sigurður Reynir íslensku fálkaorðuna fyrir framlag til íslenskra jarðvísinda og kolefnisbindingar árið 2020 og ári síðar varð Sigurður fyrstur til að hljóta viðurkenningu úr Nýsköpunarsjóði dr. Þorsteins Inga Sigfússonar við Háskóla Íslands. Þá útnefndi Rótarýklúbbur Kópavogs Sigurð Reyni Eldhuga Kópavogs nýverið en viðurkenningin er veitt einstaklingi sem hefur skarað fram úr á sínu sviði og þykir hafa haft mikil áhrif á samfélagið.

Sigurður Reynir lauk BS-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og doktorsprófi í jarðefnafræði frá Johns Hopkins University í Bandaríkjunum árið 1985. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem fræðimaður, vísindamaður og síðar rannsóknaprófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans.

Sigurður Reynir verður formlega tekinn inn í Bandarísku lista- og vísindaakademíuna við athöfn í heimaborg akademíunnar, Cambridge í Massachusetts, í september næstkomandi.

Vefsíða Sigurðar Reynis

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is