Háskóli Íslands stofnaði Vísindagarða árið 2004 en starfsemi garðanna hefur eflst mikið síðustu ár. „Í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni eru starfandi öflug alþjóðleg fyrirtæki sem m.a. koma að þróun náms og kennslu sem og rannsóknum og nýsköpun innan skólans. Í nýjasta húsi Vísindagarða, Grósku, er að finna Mýrina – sprotasetur Vísindagarða, þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki, starfsfólk og nemendur, sem taka sín fyrstu skref í nýsköpun, hafa aðsetur. Þar starfa einnig mikilvægir stuðningsaðilar sprotaumhverfisins, s.s. Auðna tæknitorg, Klak – Icelandic Startups og Nýsköpunarstofa menntunar,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

„Háskóli Íslands leiddi stofnun tækniyfirfærsluskrifstofunnar Auðna tæknitorg sem stofnuð var í lok árs 2018, en hlutverk hennar er m.a. að markaðssetja rannsóknir sem verða til innan háskólanna auk þess sem Auðna stendur fyrir svokölluðu Masterclass-námskeiði í verðmætasköpun sem starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands sækja. Í byrjun árs var Nýsköpunarstofa menntunar stofnuð í samstarfi við Reykjavíkurborg, en tilgangur hennar er m.a. að leiða saman krafta frumkvöðla úr menntakerfinu, fræðasamfélaginu og fyrirtækjum landsins, til að skapa fjölbreyttan vettvang fyrir mótun og þróun nýrra leiða og aðferða á sviði náms og menntunar. Háskóli Íslands er einn af eigendum Klaks – Icelandic Startups og er bakhjarl Gulleggsins, stærstu frumkvöðlakeppni landsins, en auk Gulleggsins starfrækir Klak ýmsa hraðla og aðstoðar nemendur sem hafa aðstöðu í Sprotamýri í Mýrinni. Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg standa að Snjallræði sem er hraðall fyrir samfélagslega nýsköpun. Þá hefur Háskóli Íslands í samstarfi við sendiráð Bandaríkjanna um tveggja ára skeið staðið fyrir AWE-nýsköpunarhraðli fyrir konur. Ljóst er að auka þarf þátttöku kvenna í nýsköpun og hefur AWE-hraðallinn nú þegar skilað miklu.

Háskóli Íslands er stoltur af nýsköpunarframlagi starfsmanna og nemenda sinna. Frá 1998 hefur skólinn staðið fyrir árlegri samkeppni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands þar sem leitað er eftir nýstárlegum hugmyndum til að stuðla að samfélagslegum og hagrænum framförum. Mörg glæsileg verkefni hafa komið út úr þessari samkeppni og hafa sprotafyrirtæki verið stofnuð um mörg þeirra, en Háskóli Íslands á nú hlut í 20 sprotafyrirtækjum á grunni rannsókna starfsfólks.

Auk framangreinds býður Háskóli Íslands upp á meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun sem er sameiginleg námsleið viðskiptafræðideildar og iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideildar. Því til viðbótar býður Háskóli Íslands upp á um 70 nýsköpunartengd námskeið á öllum fræðasviðum.

Í núverandi stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er rík áhersla lögð á nýsköpun og að efla enn frekar umhverfi nýsköpunar nemenda og starfsfólks í samstarfi við Vísindagarða, atvinnulíf og samfélag. Liður í því er m.a. aukinn þungi á samtal skólans við atvinnulíf, fjölgun þverfaglegra námskeiða í frumkvöðlafræðum og samfélagslegri nýsköpun, efling íslenskunnar í heimi breytinga, styrking nýsköpunarmenningar og stuðningur við hagnýtingu rannsókna og aukið samstarf við önnur skólastig um nýsköpun og vísindi. Hlutverk Háskóla Íslands er að leggja af mörkum til samfélags og atvinnulífs og vera mikilvæg undirstaða nýsköpunar og framfara í landinu. Því hlutverki ætlum við svo sannarlega að standa undir.“

Kolbrún segir að Nýsköpunarstofa menntunar muni leggja kapp á að hugvit og þekking á sviði menntunar nýtist til að skapa betra samfélag. MYND/K.I

Nýsköpunarstofa menntunar tekur til starfa

Nú á haustdögum tekur til starfa Nýsköpunar- stofa menntunar í Grósku á vettvangi Vísindagarða. Hlutverk stofunnar er að leiða saman krafta fræða- samfélagsins, frumkvöðla og atvinnulífs, til að stuðla að nýsköpun á sviði menntunar.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og stjórnarformaður stofunnar, segir að mikil nýsköpun sé á sviði menntunar og að ómetanleg tækifæri felist í að efla tengslanet hagaðila á þeim vettvangi. Nýsköpunarstofa menntunar er samstarfsverkefni aðila úr fræðaog fagsamfélagi og úr atvinnulífinu en háskólinn og Reykjavíkurborg standa að daglegum rekstri hennar. „Menntun er grunnstoð hvers samfélags og því skiptir öllu máli að leiða saman krafta allra þeirra sem starfa og brenna fyrir menntun, hvort sem um er að ræða formlegt eða óformlegt nám,“ segir Kolbrún. Í kjölfar heims- og tæknivæðingar kalla samfélög sífellt á endurnýjaða hæfni og þekkingu.

„Hlutverk Nýsköpunarstofu menntunar er að skapa tengslanet og vettvang til samstarfs fyrir breiðan hóp hagsmunaaðila sem eiga mikið undir því að efla nýsköpun á sviði náms, kennslu, þjálfunar og fræðslu.“ Á undanförnum áratugum hefur stafrænni þróun og nýtingu hugbúnaðar til kennslu fleytt gríðarlega fram og Kolbrún bendir á að sú staðreynd hafi meðal annars gert nemendum að hluta til kleift að stunda nám á tíma heimsfaraldurs. „En tæknin er eingöngu verkfæri, hún er ekki markmið í sjálfu sér,“ segir hún.

„Við þróum og innleiðum tækni í þágu tiltekinna markmiða sem á vettvangi menntunar snúast ávallt um menntahugsjónina sjálfa, mennskuna, samskipti milli fólks og betra samfélag. Okkur er því ekki alltaf tamt að tala um nýsköpun í þessu samhengi, þar sem nýsköpun er gjarnan fyrst og fremst tengd þróun tækni og verkvits.“ Kolbrún telur mikilvægt að renna styrkari stoðum undir reynslu ungs fólks á öllum skólastigum af samfélagslegri nýsköpun: „Eitt af verkefnum Nýsköpunarstofunnar verður einmitt að bjóða upp á fræðslu og þjálfun í aðferðum og verkfærum samfélagslegrar nýsköpunar, ekki síst fyrir áhugasama kennara allra skólastiga en einnig fyrir nemendur, ekki síst háskólanema.“

Auk þess mun stofan skipuleggja árlegan nýsköpunarviðburð á sviði menntunar og skapa formlegan og óformlegan vettvang til samvinnu um nýsköpun og framtíð menntunar. Horft er til erlendra fyrirmynda, meðal annars Finnlands og Kanada, og stendur til að bjóða til landsins erlendum sérfræðingum til skrafs og ráðagerða. „Við finnum fyrir góðum stuðningi stjórnvalda, sem hafa raunar þegar falið háskólanum að halda utan um tiltekin verkefni á sviði nýsköpunarmenntunar, svo sem nýsköpunarkeppni grunnskóla,“ segir Kolbrún.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar rekur Mixtúru, sköpunar- og tæknismiðju fyrir skóla- og frístundastarf og mun sú eining koma að starfsemi stofunnar. „Hér er að skapast tækifæri til að nýta mannauð og þekkingu í þágu landsins alls. Nýsköpunarstofa menntunar mun leggja kapp á að hugvit og þekking á sviði menntunar nýtist til að skapa betra samfélag, sem einkennist af velferð, árangri og virkri þátttöku samfélagsþegna.“

Snorri Þór Sigurðsson hefur verið að þróa stakeindir sem munu nýtast vel í framtíðinni við rannsóknir. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Uppgötvun sem nýtist við rannsóknir

Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í efnafræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, hefur þróað stakeindir sem munu nýtast vel í rannsóknum á fjölmörgum fræðasviðum.

Kjarnsegulgreining er mikið notuð við rannsóknir á lífsameindum sem tengjast sjúkdómum í því augnamiði að leita lækninga. Líklegt er að stakeindirnar muni gagnast við slíkar rannsóknir og þar með hafa óbein áhrif á þróun læknisfræði, að því er Snorri greinir frá. Þegar hann er spurður um hagnýtt gildi uppfinningarinnar, svarar hann: „Flestir þekkja segulómun, sem notuð er til að skoða vefjabyggingu. Slíkar mælingar fara fram í segulsviði og gefa upplýsingar um atómkjarna sem notaðir eru til að útbúa myndir af vefjunum.

Kjarnsegulgreining er almennt nafn yfir slíkar litrófsmælingar og er mikið notuð til rannsókna á byggingu margvíslegra efnasambanda, sem nýtist meðal annars við þróun á nýjum efnum með eftirsóknarverðari eiginleika,“ útskýrir Snorri og bætir við: „Einn galli við þessa greiningaraðferð er að hún er ekki mjög næm. Hún krefst mun meira efnis en margar aðrar litrófsgreiningaraðferðir og mælingar taka langan tíma. Sum efni er því hreinlega ekki hægt að rannsaka með þessari aðferð. Aftur á móti er unnt að auka verulega næmni kjarnsegulgreininga með því að bæta stöðugum stakeindum í sýnin og nota sérútbúna kjarnsegulgreina. Þar skiptir bygging stakeindanna miklu máli.

Stakeindirnar, sem við höfum þróað, Asympol og Pyrrotripol, eru fremstar í flokki varðandi mögnun á næmni kjarnsegulgreiningar,“ segir hann.

Snorri er spurður hvers vegna þróuð hafi verið tvö mismunandi efni. „Það kom í ljós að virkni stakeindanna fer eftir styrk segulsviðsins. Asympol gefur betri niðurstöður við lægra segulsvið og Pyrrotripol við hærra segulsvið. Einnig má nefna að efnin sem við höfum útbúið eru í raun fleiri en tvö, því Asympol og Pyrrotripol eru efnaflokkar sem innihalda afleiður er hafa mismunandi eðliseiginleika, til að mynda leysni,“ segir hann, en unnið hefur verið að þróun þessara efna frá árinu 2015.

„Við erum búin að fá einkaleyfi fyrir Asympol og sóttum um einkaleyfi fyrir Pyrrotripol í september 2021. Tvær Asympol-afleiður voru settar á markað í byrjun þessa árs, Asympol-POK, sem er fyrir mælingar í vatnslausnum, og Asympol-TEK, sem er fyrir mælingar í lífrænum leysum,“ segir Snorri Þór.

„Verkefnið er unnið í samstarfi við vísindamenn við CEA rannsóknastofnunina í Grenoble, Frakklandi, sem og við Florida State-háskólann í Bandaríkjunum. Okkar sérfræðiþekking liggur í efnasmíðum á stakeindum, en samstarfsmenn okkar eru sérfræðingar í notkun tölvureikninga til að meta mögnunarhæfni stakeinda áður en við ráðumst í efnasmíðar þeirra.

Samstarfsmenn okkar mæla einnig hversu mikið næmni kjarnsegulgreiningar eykst við notkun nýrra stakeinda.“