Starfsfólk Raunvísindastofnunar og Raunvísindadeildar hljóta verðlaun á hinum árlegu Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum HÍ

Hin árlegu Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ fóru fram í Hátíðasal Háskólans í gær.
 
Samkeppnin um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands hefur verið haldin í yfir 20 ár undir ýmsum nöfnum. Að þessu sinni bárust 27 tillögur í samkeppnina. Dómefnd, sem skipuð var sérfræðingum innan og utan skólans, fór yfir tillögurnar og mat þær út frá nýnæmi og frumleika, útfærslu, samfélagslegum áhrifum, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnið væri í samræmi við stefnu skólans og styddi við starfsemi hans.
 
Úhlutað var verðlaunum úr fjórum flokkum og fengu starfsfólk Raunvísindastofnunar og Raunvísindadeildar verðlaun úr þremur flokkum.
 
Í flokknum Tækni og framfarir hlaut verkefnið Brennisteinsríkar fjölliður sem lím í sólarrafhlöðuframleiðslu verðlaun að upphæð 1,5 milljónir króna. Það snýst um þróun á nýju lími sem bætt getur orkunýtingu sólarrafhlaðna um allt að 30%.  „Taporkunýting veltur að miklu leyti á brotstuðli þess líms sem notað er í að líma saman einingar rafhlaðnanna. Núverandi lím á markaði hefur brotstuðul upp á 1.4 en nýja límið hefur brotstuðul 1.8. Hámarksbrotstuðull sem hægt er að vænta er 2.0,“ segir í kynningu á uppfinningunni sem nú er í einkaleyfaferli. Samstarfsaðilar munu prófa límið og er samtal hafið við áhugasöm fyrirtæki um hagnýtingu.
 
Dómnefnd bendir í umsögn sinni á að verkefnið sé í senn hagnýtt og feli í sér verulegan samfélagslegan ávinning enda til mikils að vinna að bæta umhverfisvæna orkunýtni. Verkefnið sé gott dæmi um samstarf Háskóla Íslands við innlenda og erlenda aðila. 
 
Að verkefninu standa Sigríður Suman, prófessor í efnafræði, Dmitrii Razinkov, doktorsnemi í sömu grein, og Hafdís Inga Ingvarsdóttir, en hún útskrifaðist með MS í efnafræði 2018. Verkefnið er unnið í samstarfi Esteban Meja frá Leibniz Institute for Catalysis í Rostock í Þýskalandi og Gissur Örlygsson hjá Tæknisetri ehf. 
 
Verðlaun að upphæð 1,5 milljónir króna í flokknum Samfélag komu í hlut verkefnisins Menntun, bálkakeðjur og rafmyntir í fátækrahverfum. Tilgangurinn með verkefninu er að hjálpa nemendum á fátækustu svæðum heims að komast inn í háskóla. Verkefnið byggist á Tutor-web kennslukerfi í stærðfræði, sem þróað hefur verið við HÍ, og rafmyntinni Broskallar (SmileyCoins) sem þróuð var sem umbunaraðferð fyrir nemendur. Styrktarfélagið Broskallar safnar fé, að mestu í gegnum styrki, og kaupir spjaldtölvur til að gefa bókasöfnum í Kenía, sem síðan lána nemendum sem geta æft sig í Tutor-web kerfinu. Þegar nemendur ljúka tilteknu námsefni fá þau Broskalla sem þau geta notað til að kaupa spjaldtölvuna, ef þau klára allt námsefnið til stúdentsprófs í stærðfræði, eða ýmsar nauðsynjar í litlum „búðum“ í bókasöfnunum, t.d. matvöru, skafmiða með gagnamagni og dömubindi. Sú breyting að færa spjaldtölvurnar yfir á bókasöfn í stað skóla og bjóða upp á kaup á matvöru hefur aukið til muna fjölda þeirra nemenda sem taka þátt í verkefninu og m.a. fjölgað stúlkum í námi í landinu. 
 
„Það er mat dómnefndar að verkefnið falli vel að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið sé þarft og feli í sér nýstárlega leið til að stuðla að menntun viðkvæms hóps í samfélaginu,“ segir m.a. í umsögn dómnefndar sem bendir jafnframt á að umsækjendur hafi sýnt mikla þrautseigju við þróun verkefnisins sem leitt hafi til nýrrar nálgunar sem skilað hafi góðri raun. 
 
Þá bendir dómnefnd á að verkefnið sé gott dæmi um víðtækt samstarf sem miðar að því að skila verkefninu til samfélagsins. Að því koma 20 bókasöfn, skólar, munaðarleysingjaheimili og flóttamannabúðir í Kenía auk fjölda samtaka og stofnana sem starfa í landinu, eins og AfricanMaths Initiative, Stratmore University, Maseno University, Challenge Aid, Windle International Kenya, ABC barnahjálp, Íslenska barnahjálpin, Shuttle Thread Ltd, Hringfarinn ehf., ásamt 40 góðgerðasamtökum sem taka í dag við styrkjum í Brosköllum. 
 
Að verkefninu standa Gunnar Stefánsson, prófessor í stærðfræði, og Anna Helga Jónsdóttir, dósent í sömu grein, en fjöldi nemenda HÍ hefur einnig unnið að verkefninu síðustu 20 ár. 
 
Hvatningarverðlaun að upphæð 500 þúsund krónur hlaut verkefnið Plastendurvinnsla út frá leysni. Það felur í sér nýja aðferð við að aðskilja fjölliður í plasti eftir tegund og stærð en með þeirri aðferð má flokka og endurvinna með raunverulegum hætti fleiri plasttegundir. Aðferðin getur nýst plastiðnaði og samfélaginu í þeirri viðleitni að draga úr plastúrgangi sem endar á ruslahaugum, í hafinu eða brennslu en í dag er einungis hluti alls plastúrgangs raunverulega endurunninn.
 
Það er mat dómnefndar að verkefnið hafi mikil samfélagsleg áhrif og að um sé að ræða nýja og spennandi nálgun við endurvinnslu sem er verulegt vandamál. Þá falli verkefnið vel að stefnu og starfi skólans.
 
Að baki verkefninu standa Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor í efnafræði, Sigurður Guðni Gunnarsson, doktorsnemi í sömu grein, Sólrún Elín Freygarðsdóttir, BS-nemi í sömu grein, og Hreinn Kristjánsson, en hann útskrifaðist með BS-gráðu í efnafræði 2021. Þau eru að skoða samstarf við innlenda aðila um verkefnið en fjallað var um það á vef Háskólans fyrir nokkrum misserum.
 
Samkeppnin um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is