Sandra Mjöll ráðin framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar Háskólans

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar Háskólans (RH).

Sandra Mjöll er með doktorspróf í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu á sviði rekstrar, nýsköpunar og vísinda. Hún er ein af stofnendum Platome líftækni, kom að uppbyggingu fyrirtækisins frá grunni og var framkvæmdastjóri þess frá stofnun til ársins 2018. Sandra Mjöll hefur einnig starfað sem aðjunkt við Læknadeild Háskóla Íslands og sem vörustjóri og síðar framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá íslenska lyfjafyrirtækinu Florealis. Þá starfar hún einnig sjálfstætt sem ráðgjafi í nýsköpun með áherslu á rekstur í akademísku umhverfi.

Sandra Mjöll hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hún var m.a. valin frumkvöðull ársins hjá alþjóðlegu GWIIN-samtökunum árið 2017 og sama ár valdi Viðskiptablaðið Platome líftækni sprotafyrirtæki ársins. JCI samtökin hafa tvisvar tilnefnt hana til árlegrar viðurkenningar sem framúrskarandi ungur Íslendingur og hún hefur hlotið hvatningarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu.

Raunvísindastofnun Háskólans er vettvangur viðamikilla grunnrannsókna á sviði raunvísinda. Stofnunin starfar í alþjóðlegu vísindaumhverfi og leggur sérstaka áherslu á rannsóknir í eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði og jarðvísindum. Raunvísindastofnun rekur meðal annars Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun auk þess sem rekstur Norræna eldfjallasetursins, Örtæknikjarnans og Efnagreiningarsetursins heyrir undir stofnunina. 

„Starfsemi Raunvísindastofnunar er alveg ótrúlega fjölbreytt og þar fæst framúrskarandi vísindafólk við margháttaðar rannsóknir, allt frá upphafi alheimsins yfir í hreyfingar á jarðskorpunni og eldgos,“ segir Sandra Mjöll. „Þessi fjölbreytni gerir starfið mjög spennandi og minnir samtímis á mikilvægi þess að standa vörð um akademískt frelsi og styðja við grunnrannsóknir. Síðustu 18 mánuðir hafa undirstrikað mikilvægi öflugra vísindarannsókna og þess að geta leitað til sérfræðinga þegar á reynir, hvort sem er í heimsfaraldri eða náttúruvá. Með því að efla vísindastarf á Íslandi stuðlum við að þekkingarsköpun sem er undirstaða framfara og ýtir undir nýsköpun. Þetta er mér hjartans mál og því mikill heiður að taka við starfi framkvæmdastjóra hjá einni öflugustu vísindastofnun landsins.“

Árlega koma um 180 manns að starfsemi Raunvísindastofnunar og sem stendur er unnið að 12 rannsóknaverkefnum með stuðningi úr evrópskum rannsóknasjóðum og tæplega 40 verkefnum sem styrkt eru af Rannsóknasjóði Íslands (Rannís). Raunvísindastofnun hefur aðsetur á þremur stöðum á háskólasvæðinu en skrifstofa stofnunarinnar er í Tæknigarði, Dunhaga 5.

Sandra Mjöll tók við starfi framkvæmdastjóra Raunvísindastofnunar í byrjun ágúst og er með aðsetur í Tæknigarði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is