Doktorsvörn í eðlisfræði: Sebastian Bohr

Sebastian Bohr ver doktorsritgerð sína Þrýstingssveiflur hulduefnis í uppbyggingu hins unga alheims (Dark Acoustic Oscillations in Structure Formation: The High Redshift Universe), miðvikudaginn 7. júlí kl. 9. Vörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar og verður einnig streymt á slóðinni https://livestream.com/hi/doktorsvornsebastianbohr

Andmælendur:
Dr. Céline Bœhm, prófessor við University of Sydney, Ástralíu
Dr. Aurel Schneider, lektor við University of Zürich, Sviss

Leiðbeinandi: Dr. Jesús Zavala Franco, dósent við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Páll Jakobsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Steen H. Hansen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla

Doktorsvörn stýrir: Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor og deildarforseti  Raunvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Eðli hulduefnis er enn óleyst ráðgáta innan eðlisfræðinnar og því hefur verið stungið upp á ógrynni líkana til að lýsa því. Eitt þeirra sem lofar góðu inniheldur hulduefni sem víxlverkar við afstæðilegar eindir í hinum unga alheimi. Þessi víxlverkun endurspeglast í dreifingu hulduefnis sem þrýstingssveiflur (e. DAO) áður en uppbygging alheimsins hefst og er hugsanlega mælanleg.

Í þessari ritgerð eru kynntar tvær breytur sem lýsa að fullu DAO líkönum út frá sérkennum þeirra í aflrófinu: útslagi og hæð megintopps DAO. Sérsniðin hermilíkön eru síðan nýtt til að rannsaka breyturými DAO sem tengist myndun vetrarbrauta. Kynnt er ný aðferð til að bera saman mismunandi formgerðir alheimsins. Hún gerir mögulegt að bera kennsl á svæði með ólínulegri uppbyggingu formgerðar við há rauðvik, er þetta byggt á tölfræðilegum mælikvörðum eins og ólínulega aflrófinu og massadreifingarreglu hjúpsins.

Ein af niðurstöðunum er sú að fyrir stóran hluta breyturýmis DAO er ólínulega aflrófið í raun óaðgreinanlegt frá líkönum sem innihalda svokallað volgt hulduefni. Auk þess hefur aðeins lítill hluti af þeim líkönum með kröftugustu DAO, auðgreinanlegt aflróf. Hins vegar brýtur massadreifingarregla hjúpsins margfeldnina á milli DAO og volgs hulduefnis. Þessar niðurstöður sýna að hægt er að nota áðurnefndar breytur á skjótan hátt til að tengja ákveðið hulduefnislíkan við línulega aflrófið og þaðan við ólínulega aflrófið og massadreifingarreglu hjúpsins.

Einnig er sýnt fram á að hægt er að lýsa eiginleikum DAO hjúpa með útvíkkaðri aðferðafræði Press-Schechter með því að nota slétta k síu. Aftur á móti er formgerð hjúpa innan DAO-heimsfræði lýst vel með hinu þekkta Navarro-Frenk-White sniði (mikið notað í köldu hulduefni). Miðað við kalt hulduefni er samansöfnun hjúpa með lágan massa minni en í DAO líkönum. Þessar niðurstöður er hægt að nýta til að framkvæma hagkvæma útreikninga, við hátt rauðvik, á massadreifingarreglu hjúpsins og massa-samansöfnunarsambandinu, í stað keyrslu hermilíkana sem kosta mikinn reiknitíma í tölvum. Þetta á við um nánast allt DAO breyturýmið sem kannað er í þessari ritgerð.

Að lokum er sýnt að ákveðnir eiginleikar DAO geta hugsanlega lifað af í 1D aflrófinu, niður í rauðvik sem kannað er með Lyman-a skóginum (z = 3-5.4) og komandi 21-cm athugunum (z = 10-25).

Um doktorsefnið
Sebastian Bohr fæddist í Grevenbroich í Nordrhein-Westfalen í Þýskalandi árið 1993. Hann lauk BSc- og MSc-gráðu í eðlisfræði við RWTH Aachen háskólann 2015 og 2017.  Árið 2017 flutti hann til Íslands til að stunda doktorsnám við Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is