Kristbjörg Anna Þórarinsdóttir hlýtur styrk úr Minningarsjóði Aðalsteins Kristjánssonar til rannsókna í raunvísindum

Tveir styrkir hafa verið veittir úr Minningarsjóði Aðalsteins Kristjánssonar til rannsókna í raunvísindum. Styrkhafar eru Kristbjörg Anna Þórarinsdóttir, doktorsnemi í eðlisfræði við Raunvísindadeild, og Susanne Claudia Möckel, doktorsnemi í landfræði við  Líf- og umhverfisvísindadeild. Heildarupphæð styrkja nemur 2 milljónum króna.

Tilgangur Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar er að veita nemendum og/eða fræðimönnum við Háskóla Íslands styrki til rannsókna í raunvísindum.

 

Doktorsrannsókn Kristbjargar Önnu Þórarinsdóttur fjallar um þróun nýrra segulefna fyrir spuna-rafeindatækni (e. spintronics). Umfang tölva (rúmtak) hefur minnkað verulega á síðustu árum samhliða því sem reikni- og geymslugeta þeirra hefur stóraukist. Þetta er vegna hraðrar þróunar á sviði örtækni (e. nanotechnology). Harðir diskar geyma upplýsingar í bitum þar sem hver biti er skrifaður í járnseglandi efni og hefur ákveðna segulstefnu. Í áframhaldandi leit að öflugri tölvum er mikilvægt að finna efni sem hægt er að nota í smærri íhluti en á sama tíma er þrýstingur á að lækka framleiðslukostnað. Rannsóknir benda til þess að svokölluð myndlaus efni séu líkleg til þess að verða næsta kynslóð efna sem notuð verða í örtækni. Í myndlausum efnum eru atómin ekki með reglulega uppröðun líkt og í kristöllum. Seguleiginleikar þessara efna eru á margan hátt afar frábrugðnir seguleiginleikum kristalla og margt enn óþekkt. Í myndlausum efnum spanast upp áður óþekktir seguleiginleikar sem geta skipt sköpum í til dæmis segulminnum og öðrum segulrafrásum. Leiðbeinandi Kristbjargar Önnu er Friðrik Magnus, vísindamaður á Raunvísindastofnun Háskólans.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is