Verðlaun fyrir frábæran árangur í stærðfræði


Ísak Valsson, nýútskrifaður nemandi úr stærðfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar prófessors fyrir frábæran námsárangur. Verðlaunin nema 7.000 dollurum, jafnvirði um 900 þúsund króna.

Ísak útskrifaðist úr hagnýttri stærðfræði vorið 2020 með 10,00 í meðaleinkunn, en hann er sá fyrsti til að útskrifast með þá einkunn af námsleiðinni. Í grunnnáminu fékk hann hæstu einkunn í öllum áföngum sem hann tók í þremur mismunandi háskólum, Háskóla Íslands á fyrstu árum námsins, Stanford-háskóla í sumarnámi og Lundarháskóla í skiptinámi.

Ísak lagði mesta áherslu á líkinda- og tölfræði og tölulega greiningu í grunnnáminu en hyggst fara í framhaldsnám í tölfræði eða líftölfræði. Hann hefur fengið inni í meistarnámi við Oxford-háskóla en bíður einnig eftir svari við umsóknum um doktorsnám í Bandaríkjunum. 

Undanfarið ár hefur Ísak starfað við tölfræðideild Íslenskar erfðagreiningar og vinnur þar við rannsóknir á sambandi steinefna í blóði og sjúkdóma

Um Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors

Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar veitir viðurkenningar til stærðfræðinema og nýútskrifaðra stærðfræðinga fyrir góðan árangur og styrkir þá til frekari afreka í námi og rannsóknum.

Stofnandi sjóðsins er Sigurður Helgason, prófessor í stærðfræði við MIT í Boston. Sigurður fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir árs nám við verkfræðideild Háskóla Íslands hélt Sigurður til Danmerkur og lauk Mag.Scient.-prófi í stærðfræði 1952 frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi 1954 og kenndi síðan við Tækniháskóla Massachusetts (MIT), Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla. Sigurður varð prófessor við MIT árið 1965 og eftir hann liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar um stærðfræði. Hann hefur verið heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og er heiðursfélagi Íslenska stærðfræðifélagsins.

Styrktarsjóðir á borð við Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að hvetja nemendur skólans til dáða, efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands.

Mynd hér að ofan: Ísak Valsson tók við viðurkenningunni í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstaddri stjórn sjóðsins og rektor. Frá vinstri: Freyja Hreinsdóttir stjórnarmaður, Sverrir Örn Þorvaldsson stjórnarmaður, Ísak Valsson styrkþegi, Ragnar Sigurðsson stjórnarmaður og Jón Atli Benediktsson rektor. MYND/Árni Sæberg

Fleiri myndir frá afhendingu verðlaunann má finna hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is