Doktorsvörn í eðlisfræði - Juan Fernando Angel Ramelli

Juan Fernando Angel Ramelli ver doktorsritgerð sína Flækjueiginleikar skammtaástanda í Lifshitz líkönum (Entanglement in Quantum Lifshitz Theories), föstudaginn 6. nóvember næstkomandi.
Vörnin hefst kl.14 í stofu 023, í Veröld - Húsi Vigdísar og verður henni streymt á slóðinni: https://www.youtube.com/user/HIvarp/live
 
Andmælendur:
Dr. Stefan Vandoren, prófessor við Universiteit Utrecht, Hollandi
Dr. Jens Hjörleifur Bárðarson, dósent við KTH Royal Institute of Technology, Stokkhólmi
 
Leiðbeinandi: Dr. Valentina Giangreco Puletti, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
 
Einnig í doktorsnefnd:
 
Dr. Lárus Thorlacius, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Þórður Jónsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Erik Tonni, dósent við SISSA, Trento, Ítalíu
 
Doktorsvörn stýrir: Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands.
 
Ágrip
Á undanförnum árum hafa rannsóknir á flækjueiginleikum skammtaástanda leitt til dýpri skilnings á ýmsum sviðum eðlisfræði, svo sem þyngdarfræði og þéttiefnisfræði. Skammtafræðilega Lifshitz líkanið og alhæfingar þess eru dæmi um skammtakenningar þar sem skölun tíma og rúms stenst ekki á. Þessi líkön eru náskyld hornrækinni skammtasviðsfræði og líkt og hún hafa þau ríkulega samhverfu sem leyfir ítarlega útreikninga á mismunandi flækjueiginleikum.
 
Í ritgerðinni eru kannaðir tveir mælikvarðar á skammtaflækju, annars vegar flækjuóreiða og hins vegar svonefnd lograneikvæðni. Nákvæmar kennilegar reikniaðferðir eru notaðar til að leiða út algilda hegðun þessara stærða í Lifshitz líkönum. Útreikningarnir eru viðráðanlegir þegar líkanið er einskorðað við kúluyfirborð og hjólfleti, þar sem róf diffurvirkjanna sem koma við sögu er þekkt. Með aðferð eftirmynda má reikna flækjuóreiðu og lograneikvæðni grunnástandsins, sem og flækjuóreiðu einfaldra örvaðra ástanda. Niðurstöðuna má skrifa sem þekkt fall af stuðlum sem koma fyrir í líkaninu og skammtatölum ástandanna.
 
Um doktorsefnið
Juan Fernando Angel Ramelli fæddist í Bogotá í Kólumbíu árið 1990. Hann fluttist til Sviss árið 2001. Þar útskrifaðist hann úr menntaskóla með áherslu á stærðfræði og eðlisfræði árið 2009. Þaðan lá leiðin í ETH háskólann í Zürich þar sem hann stundaði nám í eðlisfræði. Hann lauk bakkalárgráðu árið 2013 og meistaragráðu í kennilegri eðlisfræði árið 2015. Árið 2016 flutti Juanfernando til Íslands og hóf doktorsnám við Háskóla Íslands.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is