Páll Theodórsson 4. júlí 1928 – 8. janúar 2018

Páll Theodórsson 4. júlí 1928 – 8. janúar 2018

Minningarorð Páls Einarssonar um vísindastörf hans, flutt við útför Páls 17. janúar 2018. Birt með leyfir Páls Einarssonar.

Páll Theodórsson frændi minn hefur verið persóna í mínu lífi eins lengi og ég man. Við bárum báðir nafn afa okkar. Reyndar hétu báðir afar mínir Páll og fyrir bragðið á ég marga frændur með sama nafni. Við vorum sjö í sömu kynslóð. Af öllum þessum Pálum var Palli The elstur. Hann var stóri frændinn sem fór út í heim til að verða eðlisfræðingur og varð mörgum þýðingarmikil fyrirmynd., ekki síst ungum frændum sínum. Og ekki bara eðlisfræðingur, heldur kjarneðlisfræðingur. Enda var kjarnorkan mál málanna um miðja öldina síðustu.

Eftir fyrrihlutapróf í verkfræði sótti Páll menntun sína til Kaupmannahafnar. Þar tók hann magisterpróf í eðlisfræði 1955. Að því loknu var hann sérfræðingur í tvö ár hjá Atomenergie-kommissionen við rannsóknarstöðina í Risö í Danmörk, sem þá var nýstofnuð. Þegar stofnuð var Eðlisfræðistofnun við Háskóla Íslands flutti Páll með fjölskylduna til Íslands og hóf störf þar. Eðlisfræðistofnun varð síðar hluti af Raunvísindastofnun Háskólans þegar hún var stofnuð 1966. Þar starfaði Páll síðan alla tíð, jafnvel nærri tvo áratugi eftir að hann fór opinberlega á eftirlaun.

Eitt af fyrstu verkefnum Páls á rannsóknarstöðinni í Risö var að kortleggja geislavirkni í umhverfi stöðvarinnar. Þar var beitt geislanema sem hann hafði fundið upp og hannað. Mælingar á veikri geislun voru hans sérsvið og hann var alla sína tíð ótrúlega útsjónarsamur að finna verkefni þar sem aðferðir hans komu að gagni. Verkefni hans, bæði í Risö og á hinni nýstofnuðu Eðlisfræðistofnun, snerust að miklu leyti um að fylgjast með breytingum á geislavirkni í umhverfinu, andrúmsloftinu, vatni, mjólk, kjöti og svo framvegis. Mælingar á geislavirkni í umhverfinu víða um heim sýndu ótvírætt fram á aukna geislun vegna kjarnorkusprenginga, og 1962 tókst að lokum samkomulag milli kjarnorkuveldanna um að hætta tilraunum með kjarnorkuvopn ofanjarðar.

Með styrkjum frá alþjóðlegum stofnunum tókst að byggja upp á Raunvísindastofnun tækjakost til mælinga á tví- og þrívetni. Beita má efnum og samsætum með væga geislavirkni til að rekja strauma grunnvatns og jarðhitavatns, mæla rennsli í ám og fleira. Í þessum rannsóknum átti Páll frjótt samstarf við marga félaga, bæði á Raunvísindastofnun og öðrum stofnunum.

Eitt merkilegasta rannsóknarverkefni í jarðvísindum síðari áratuga er borun í gegnum Grænlandsjökul og fleiri meginjökla jarðar þar sem rekja má veðurfarssögu jarðarinnar langt aftur í tímann með því að greina samsetningu jökulíssins í borkjörnunum. Fljótlega vaknaði hugmynd um að gera svipaðar rannsóknir á Vatnajökli. Páll tók þátt í vinnuhópi sem boraði 415 metra langan ískjarna á Bárðarbungu árið 1972. Borunin gaf mjög þýðingarmiklar niðurstöður, meðal annars um gosvirkni í Bárðarbungu og nærliggjandi eldstöðvum.

Þegar tölvur fóru að verða algengar snemma á áttunda áratugnum rann það upp fyrir fólki að þær mætti nota til margvíslegra hversdagslegra verka, svo sem að skrifa texta eða stýra framleiðslu í fiskiðnaði. Páll skrifaði og talaði um þessa framtíðarsýn, og þótti mörgum þessar hugmyndir framandi á þeim tíma. Tölvur voru ennþá stór tæki, geymd í sérstökum herbergjum og kröfðust sérhæfðs starfsfólks. Páll sá fyrir sér að tölvur yrðu minni og jafnvel hluti tækjabúnaðar. Nú þykir okkur þessi umræða furðuleg. Örtölvur stýra framleiðslu í öllum fiskiðjuverum og allur texti er skrifaður á tölvur. Ritvélin er orðin sjaldséður forngripur, þótt hún hafi verið á hvers manns borði og einkennisgripur fyrir meginhluta tuttugustu aldar.

Þróun örtölvunnar á tíunda áratugnum opnaði nýja möguleika í mælingum á veikri geislun. Nú mátti gera tæki sem voru bæði næmari en áður og gátu þar að auki greint í sundur áhrif geislunar frá mismunandi geislagjöfum. Þannig mátti lækka til muna bakgrunnsgeislun sem annars setur næmni mælitækjanna skorður. Páll vann ötullega að þróun slíkra fjölgeislamæla, sem nýtast vel í margs konar rannsóknum, t.d. aldursgreiningum og radonmælingum.

Með rannsóknum sínum, tækjasmíði og mælingum á vægri geislun í áratugi öðlaðist Páll víðtæka reynslu sem þýðingarmikið var að halda til haga og koma áleiðis til samstarfsfólks og komandi kynslóða vísindamanna. Í þessu skyni skrifaði hann fjölda tímaritsgreina, en einnig bókina Measurement of weak radioactivity, sem gefin var út af alþjóðlegu forlagi, World Scientific árið 1996.

Helsta aðferð til að aldursgreina hvers konar minjar síðustu tugþúsunda ára, bæði menningar- og jarðminjar, byggir á geislavirkri samsætu kolefnis, sem rýrnar með tímanum vegna geislavirkni sinnar. Páll fékk snemma áhuga á þessu viðfangsefni. Hjá honum vöknuðu efasemdir um að réttar ályktanir hafi verið dregnar af mæligögnunum. Taldi hann að landnám Íslands hefði, til dæmis, hafist nokkru fyrr en Ari fróði hefði talið. Þessar hugmyndir hafa fallið í grýttan jarðveg, svo mildilega sé tekið til orða. Deilan um þetta hefur staðið fram á síðustu ár. Páll vann ötullega að því að endurbæta aðferðirnar til aldursgreininga. Um þetta ræddi hann við mig af sínum kunna ákafa þegar við fundumst síðast, á tónleikum í Hörpu. Við mæltum okkur mót fljótlega eftir áramótin til að ræða málið frekar. Eitthvað verður það að bíða. Honum tókst þó núna í byrjun árs að ljúka við skýrslu um þetta. Þar undirstrikar hann að málinu sé engan veginn lokið með tilvitnun í ljóð Þórarins Eldjárns Arafræði sem endar á þessum línum: ”Það sem sannara reynist það höfum við heldur / ef hvorugt er satt.”

Ég átti þess kost að vinna með frænda mínum og nafna að rannsókn á sviði þar sem sérfræðisvið okkar sköruðust. Það hefur verið talið um nokkurra áratuga skeið að nota megi radongas til að segja fyrir um jarðskjálfta. Fyrir fjórum áratugum var sett upp kerfi slíkra mælinga á skjálftasvæði Suðurlands. Þessar mælingar gengu í nærri tvo áratugi og gáfu merkilegar niðurstöður. Þegar mælitækin gengu úr sér stóð svo á að Páll Theodórsson hafði einmitt gert verulegar endurbætur á mælitækninni og gerði tillögur um að taka mælingarnar upp að nýju. Nýju mælingarnar sýndu greinileg merki í tengslum við Suðurlandsskjálftana árið 2000, bæði á undan þeim og eftir.

Eins og sumir af frumkvöðlum vísinda á Íslandi lagði Páll áherslu á að kynna rannsóknir og vísindi fyrir almenningi. Hann skrifaði fjölmargar greinar í blöð og tímarit. Hann sá einnig um þáttinn “Tækni og vísindi” í Ríkisútvarpinu 1961-1971. Það er óhjákvæmilegt í slíku kynningarstarfi að búa til nýyrði, því íslenskan á ekki orð yfir þau nýmæli sem ber á góma. Páll lagði áherslu á að nota íslensk orð yfir hluti og hugtök. Grískir og latneskir orðstofnar, sem notaðir eru í þessu skyni í mörgum nágrannatungumálunum, duga ekki í íslensku. Hann átti drjúgan þátt í orðaskrá úr eðlisfræði sem hann og félagar hans gáfu út árið 1969.

Eins og fram kemur hér á undan var áhugasvið Páls innan eðlisfræðinnar mjög vítt. Hann hafði sívakandi auga fyrir nýjungum í tækni og hvernig nota mætti þær til framfara. Hann var fullur eldmóðs og lifandi áhuga til síðasta dags. Mér fannst ég stundum lenda í hlutverki öldungsins þegar við hittumst og hann talaði fjálglega eins og unglingur um nýjustu hugmyndir sínar. Og aldrei hvarflaði að mér sú hugsun að ég kynni dag einn að standa í þeim sporum, að flytja minningarorð í útför hans.

Ég hef hér reynt að gefa nokkra mynd af starfi vísindamanns, sem leggur verulegan skerf til þjóðfélagsins með þrotlausri vinnu. Allt of margir virðast telja að menn verði fræðingar af því að taka eitthvert háskólapróf, fái svo vel launaða innivinnu við að lesa og útdeila speki sinni. Páll er einmitt gott dæmi um það hvernig rannsóknir vísindamanns tengjast atvinnulífi, menningu, heimspólitík og hversdagslífi hvers og eins. Dæmin gerast ekki betri.

Páll Theodórsson skilur eftir sig stórt skarð. Það verður erfitt að venjast Raunvísindastofnun Háskólans án hans. Enn erfiðari er missirinn fyrir nánustu fjölskyldu hans. Ég votta henni mína dýpstu samúð.

Páll Einarsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is