Tóku þátt í tímamótarannsókn í stjarneðlisfræði

Tveir vísindamenn og doktorsnemi í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands eru meðal aðstandenda rannsóknar sem talin er marka þáttaskil í stjarnvísindum. Þar tókst alþjóðlegum hópi stjörnufræðinga í fyrsta sinn að mæla ljós frá þyngdarbylgjuatburði sem talið er að rekja megi til árekstrar tveggja nifteindastjarna í annarri vetrarbraut.

Skýrt var frá niðurstöðum rannsóknanna í vísindatímaritunum Nature, Nature Astronomy og Astrophysical Journal Lettera sem komu út í dag og hafa þær vakið mikla athygli fjölmiðla um allan heim.

Uppgötvunina má rekja til þess að þann 17. ágúst síðastliðinn mældu þyngdarbylgjumælarnir LIGO í Bandaríkjunum og Virgo á Ítalíu bylgjur sem bárust í gegnum Jörðina, en þyngdarbylgjum má lýsa sem gárum í tímarúmi líkt og vatnsbylgjur gára vatn. „Tveimur sekúndum síðar námu tveir gammageislasjónaukar í geimnum – INTEGRAL sjónauki ESA og Fermi gervitungl NASA – stuttan gammablossa, fyrirbæri sem tengist orkuríkustu sprengingum alheimsins, úr sömu átt á himninum. Næstu nætur eftir þyngdarbylgju- og gammablossann beindu stjörnufræðingar öllum tiltækum sjónaukum að svæðinu í leit að sýnilegum glæðum. Þær fundust fljótlega í NGC 4993, linsulaga vetrarbraut í um 130 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu,“ segir um málið á Stjörnufræðivefnum.

Við þessi tíðindi lögðust stjarneðlisfræðingar víða um heim á eitt og hófst þá eina öflugusta mælingaherferð sem sögur fara af í stjörnufræði þar sem notaðir voru flestir öflugustu geimsjónaukar heims, sem m.a. eru reknir á vegum Bandarísku og Evrópsku geimferðastofnananna(NASA og DSA) og European Southern Observatory(ESO). Vegna þess hve nálægt Jörðinni hamfarirnar voru reyndist það vísindamönnum auðvelt var að gera litrófsmælingar á glæðunum.

Nánar má lesa um rannsóknina á www.hi.is

Efri mynd: Páll Jakobsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands, og doktorsnemi hans, Kasper Heintz,

Neðri mynd: Guðlaugur Jóhannesson, fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskólans

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is