Vísindamaður við HÍ stýrir 500 milljóna Evrópuverkefni

Oddur Ingólfsson, prófessor í eðlisefnafræði og deildarforseti Raunvísindadeildar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, fer fyrir stórum alþjóðlegum hópi vísindamanna sem nýverið hlaut tæplega fjögurra milljóna evra styrk úr 2020 Marie Skłodowska-Curie áætlun Evrópusambandsins til rannsóknaverkefnis. 
 
Verkefnið, sem ber heitið ELENA, hófst formlega þann 1. október og er til fjögurra ára. Auk Háskóla Íslands og Raunvísindastofnunar Háskólans, koma 13 aðrir háskólar, þrjár vísindastofnanir og fimm fyrirtæki frá alls 13 löndum að verkefninu. 
 
„Þetta er vissulega mikill heiður og sýnir glöggt að markviss uppbygging Háskólans og íslenskra rannsóknastofnana mun skila sér bæði í góðri ásýnd okkar erlendis og í beinni uppbyggingu hérlendis. Svo er líka gaman að fá þennan styrk á 50 ára afmæli Raunvísindastofnunar sem er í ár,“ segir Oddur.
 
Verkefnið snýr í meginatriðum að efnafræði sem grundvelli örtækni og er styrkurinn ætlaður til rannsókna og þjálfunar framtíðarstarfsmanna á því sviði.
 
Örtækni hefur verið nefnd tækni 21. aldarinnar en hún byggir á nákvæmri stjórn á samsetningu og uppbyggingu örsmárra, virkra íhluta í tæknibúnaði sem nýtist á margvíslegan máta. Nærtækast er að nefna örgjörva og rafrásir í tölvum og samskiptabúnaði en örtæknin nýtist í dag á mun breiðari vettvangi, meðal annars í vöktun, líftækni og læknisfræði. 
 
Örtækni þróast hratt og krafan um smærri og smærri einingar og betri stjórn á samsetningu þeirra drífur þessa þróun áfram. Til að bregðast við þessu hyggst alþjóðlegi vísindahópurinn undir forystu Odds efla rannsóknir á þessu sviði og þjálfa nýjan hóp vísindamanna með það fyrir augum að styrkja nýsköpun tengda örtækni í Evrópu og tryggja samkeppnishæfni álfunnar á þessu sviði í þágu iðnaðar og atvinnulífs og samfélagsins í heild. 
 
Í rannsóknum vísindahópsins verður sjónum sérstaklega beint að tvenns konar tækni til örtækniprentunar yfirborða, annars vegar með skörpum rafeindageislum og hins vegar með háorkuljósgeislum. Í framhaldi er ætlunin að nýta þá þekkingu sem fæst með rannsóknunum til að þróa tæknina frekar svo hún verði samkeppnishæf á markaði. Fimmtán doktorsnemar taka þátt í verkefninu, þar af þrír á Íslandi, og er reiknað með að þeir verði framtíðarvísindamenn á sviði efna- og eðlisfræði örtækninnar og geti stuðlað að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi innan örtækniiðnaðarins í Evrópu. 
 
Sem fyrr segir nemur styrkur til verkefnisins tæpum um fjórum milljónum evra, jafnvirði nærri 500 milljóna íslenskra króna. Fjórðungur þess fjár, rúm ein milljón evra eða tæpar 130 milljónir króna, kemur í hlut Háskóla Íslands.
 
Vísindamenn við Háskóla Íslands hafa á undanförnum árum aflað afar myndarlegra styrkja til rannsóknarverkefna úr rannsóknaráætlunum Evrópusambandsins, ýmist sem þátttakendur eða leiðtogar verkefnanna. Á fjórða tug rannsóknarverkefna, sem vísindamenn Háskólans tengjast, hefur fengið styrk á undanförnum fjórum árum úr 7. rannsóknaráætlun ESB og Horizon 2020 áætluninni og hleypur heildarupphæð styrkjanna á milljörðum. Þá má geta þess að um þriðjungur af rekstrarfé Háskólans eru sértekjur sem m.a. er aflað með styrkjum  utan lands og innan.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is