Binding koltvíoxíðs í basalti er örugg og fljótvirk

Rannsóknir íslenskra vísindamanna og erlendra samstarfsmanna þeirra sýna fram á að fremur auðvelt sé að binda koltvíoxíð í bergi. Niðurstöður tilraunaverkefnis á Hellisheiði, sem ber heitið CarbFix, sýna að koltvíoxíð binst í bergi á um tveimur árum en áður var talið að það tæki mörg þúsund ár. Þetta gefur vísbendingar um að hægt sé að binda koltvíoxíð á öruggan hátt með fremur einföldum hætti, en koltvíoxíð er einn helsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar.
 
Þetta kemur fram í grein í nýjasta hefti hins virta vísindatímarits Science sem kemur út á morgun, þann 10. júní. Höfundar greinarinnar, sem ber heitið Rapid carbon mineralization for permanent disposal of anthropogenic carbon dioxide emission, eru úr rannsóknarhópi sem vinnur að bindingu koltvíoxíðs í basalti. Meðlimir hópsins eru m.a. frá Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, ÍSOR, Columbia University í New York, CNRS í Toulouse, University of Southampton, University College í London og Kaupmannahafnarháskóla. Juerg Matter frá University of Southampton leiðir þann hluta rannsóknanna sem greinin fjallar um.
 
Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, er einn af meðhöfundum greinarinnar í Science en hann hefur verið stjórnarformaður vísindaráðs CarbFix frá upphafi. Tíu doktorsnemar úr CarbFix-hópnum hafa lokið verkefnum sínum, flestir þeirra frá Háskóla Íslands, og nú eru tveir nemar að vinna að verkefnum sínum innan hópsins. Annar þeirra, Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, á stóran þátt í greininni sem birtist í Science í dag.
 
Úr þúsundum ára í tvö á Hellisheiði
 
Allt kolefni á jörðinni á sinn uppruna og enda í bergi. Kolefnið ferðast milli andrúmslofts, lífvera, jarðvegs, úthafanna og bergs í svokallaðri kolefnishringrás. Þessari hringrás hafa mennirnir hins vegar raskað með brennslu jarðefnaeldsneytis sem veldur því að koltvíoxíð hefur aukist í andrúmsloftinu, en það er talin ein helsta ástæða hnattrænnar hlýnunar. Ein af þeim leiðum sem vísindamenn hafa rannsakað til að vinna gegn þessari þróun er að fanga koltvíoxíð úr útblæstri orku- og iðjuvera og dæla því djúpt niður í berglög. Slík binding koltvíoxíðs gæti dregið úr áhrifum þess á loftslag. Í Noregi hefur koltvíoxíði til að mynda verið dælt niður í setberg á botni Norðursjávar frá árinu 1996. Þar er áætlað að það taki tugþúsundir ára fyrir koltvíoxíðið að bindast þeim steintegundum sem þar er að finna, en binding kolefnis í steindir er öruggasta bindingarleiðin. Höfundar greinarinnar í Science sýna fram á að basalt og steintegundir þess eigi hins vegar auðveldar með að hvarfast við koltvíoxíð og að í basalti taki bindingin aðeins um tvö ár.
 
Basalt er algengasta bergtegundin á yfirborði jarðar og er berggrunnur Íslands nær einvörðungu úr basalti. Markmið CarbFix-verkefnisins er að finna leiðir til að binda koltvíoxíð í steindum djúpt í basaltlögum í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Koltvíoxíðið er leyst upp í vatni sem veitt er niður í borholu og með tímanum binst kolefnið berginu og myndar steindir. Um 95% þess koltvíoxíðs sem dælt hefur verið ofan í jörðina við Hellisheiðarvirkjun er bundið í steindir innan tveggja ára. Því er útlit fyrir að CarbFix-aðferðin við bindingu koltvíoxíðs í fast efni sé fljótvirkari en aðrar aðferðir sem þekktar eru.
 
Greinina í Science má nálgast á vef tímaritsins.
 
Niðurstöður rannsóknanna hafa vakið mikla athygli og hafa margir af stærstu fjölmiðlum heims fjallað um þær, þar á meðal GuardianWashington PostCNBC og New York Times, en blaðið fjallaði einnig ítarlega um verkefnið á síðasta ári.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is