Rannsóknasjóður Vísinda- og tækniráðs úthlutar tveimur öndvegisstyrkjum og átta verkefnastyrkjum til vísindamanna Raunvísindastofnunar Háskólans

Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Faglegt mat fer fram erlendis.

Egill Skúlason, Efnafræðistofu Eðlisvísindastofnunar og Ingi Þorleifur Bjarnason Jarðvísindastofnun leiða verkefni sem hlutu öndvegisstyrki í ár. Auk þeirra, hlutu átta ný rannsóknaverkefni á vegum stofnunarinnar styrki. Heildarupphæð styrkjanna nemur tæplega 140 milljónum, þar af 76.4 milljón í öndvegisstyrki og 63.5 milljón í verkefnastyrki.

Öndvegisverkefni Egils Skúlasonar og samstarfsmanna byggir á tölvureikningum og tilraunum til að hanna, rækta, prófa og síðar endurbæta efnahvata fyrir rafefnafræðilega afoxun niturgass yfir í ammóníak við stofuhita og –þrýsting í vatnslausn. Rannsókn byggð á tölvureikningum var nýlega gerð af umsóknaraðilum á efnahvötunarvirkni málmnítríða fyrir þetta efnahvarf. Áhugaverðar niðurstöður fengust þar sem nokkur nítríð voru álitin lofa góðu. Frekari rannsóknir verða gerðar með bæði tilraunum og reikningum til að skilja betur efnaferlið og hanna hagkvæmasta efnahvatann og hvarfaðstæðurnar til að á lokum sé hægt að mynda ammóníak rafefnafræðilega frá vatni og lofti. Rannsóknarteymið er aðallega staðsett við Háskóla Íslands og við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en einnig við Ríkisháskóla Oregonríkis.

Öndvegisverkefni Inga Þ. Bjarnasonar og samstarfsmanna snýr að fjórvíðri greiningu á skjálftavirkni á Suðurlandi sem aðferð til að segja fyrir um stóra jarðskjálfta. Gerðar verða þrívíðar sneiðmyndir af hraða jarðskjálftabylgna á Suðurlandi. Bylgjuhraði svæðisins verður skoðaður í tímagluggum fyrir og eftir stóru skjálftana á Suðurlandi í júní 2000.

Við óskum Agli Skúlasýni , Inga Þorleifi Bjarnasyni, Andra Stefánssyni, Árnýju Erlu Sveinbjörnsdóttur, Birgi Hrafnkelssyni, Esther Ruth Guðmundsdóttur, Hannesi Jónssyni, Ragnari Sigurðssyni og Benedikt Steinari Magnússyni, Sigríði Guðrúnu Suman, Þresti Þorsteinssyni og samstarfsmönnum til hamingju með góðan árangur í vísindarannsóknum. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is