Lilja Björk Jónsdóttir, MS-nemi við Raunvísindadeild
Ensím nefnast tilteknar tegundir prótína. Mörg þúsund ensím eru þekkt og þau er hægt að nota til ýmissa verka, t.d. sem hjálparefni í þvott, til sykurvinnslu og við margs konar efnasmíðar, lækningar og efnamælingar. „Tilgangur rannsóknar minnar er að öðlast betri skilning á því hvaða breytingar eiga sér stað í byggingu prótína sem gerir samstofna ensímum kleift að hvata sömu efnahvörf í lífverum sem hafa aðlagast ólíku umhverfishitastigi, t.d. ensím úr sjávarbakteríu og ensím úr hverabakteríu,“ segir Lilja Björk Jónsdóttir, MS-nemi í lífefnafræði.
Hæfileiki ensíma til að hvata hvörf skilur þau frá öðrum prótínum. Ensím eru nokkuð óstöðug og við litlar breytingar á hitastigi eða sýrustigi geta þau misst virkni sína. „Rannsóknin snýst um að kanna áhrif valinna stökkbreytinga á hitaþolnu ensími, sem hefur það að markmiði að fella út svokallaðar saltbrýr. Þannig er hitaþolnu ensími stökkbreytt í átt að kuldaþolnu ensími,“ segir Lilja.
„Við gerðum samanburð á samstofna ensímum, þar sem bygging ensímanna er mjög lík, en eiginleikar þeirra m.t.t. virkni og stöðugleika eru mjög frábrugðnir. Í ljós kom að í hitaþolna ensíminu voru sex fleiri jónapör eða saltbrýr en í því kuldaþolna. Aukinn fjöldi jónapara er talinn vera aðalástæða aukins stöðugleika hitaþolinna prótína. Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta kenninguna um að saltbrýr auki stöðugleika hitaþolinna ensíma. Við útfellingu urðu prótínin óstöðugri en hins vegar virkari og sú virkni er lýsandi fyrir kuldaþolin ensím,“ segir Lilja. Með öðrum orðum hefur þetta mikla þýðingu fyrir iðnað enda er mikill áhugi fyrir því að skilja forsendur fyrir hitaþoli þessara ensíma.
Leiðbeinandi: Magnús Már Kristjánsson, prófessor við Raunvísindadeild.