Einstakar stakeindir

Svokallaðar stakeindir leika lykilhlutverk í rannsókn sem Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í lífrænni efnafræði, vinnur að ásamt framhaldsnemum og ný- doktorum við Raunvísindadeild, auk erlendra samstarfsaðila.

„Stakeindir eru efnasambönd sem koma við sögu í mörgum ferlum líkamans, t.d. sem taugaboðefni. Flestar stakeindir eru óstöðugar en ekki allar,“ segir Snorri. Margir þekkja hugtakið sindurefni sem er einmitt notað um stakeindir sem finna má í líkamanum þar sem þær vegast á við svokölluð andoxunarefni.

Verkefnið sem Snorri og samstarfsfólk hans vinnur að er tvíþætt. „Það snýst um smíði og notkun á stöðugum stakeindum. Annars vegar sem merki fyrir litrófsgreiningu í segulsviði sem oft er nefnd rafeindaspunagreining.Með þessari tegund litrófsgreiningar er unnt að greina byggingu og hreyfingu á stórum líffræðilega virkum sameindum, eins og prótínum og kjarn- sýrum. Hinn meginþáttur verkefnisins er notkun tvístakeinda til að auka næmi segulómunar sem er m.a. notuð í læknisfræði við myndgreiningu á líkamsvefjum,“ útskýrir Snorri.

Snorri segir hálfgerða tilviljun hafa ráðið því að hann leiddist inn á þetta rannsóknasvið. „Þegar ég starfaði við Washington-háskóla spurði einn samstarfsmaður minn, sem vann við greiningar á efnum sem innihalda stakeindir, hvort erfitt væri að innleiða stakeindir í fyrir fram ákveðnar stöður í RNA, sem er kjarnsýra. Við þróuðum aðferðafræði til slíks og greindum spunamerktu sameindirnar í framhaldinu. Þessi rannsókn gekk mjög vel. Síðan leiddi eitt af öðru og er ég nú búinn að stunda rannsóknir á þessu sviði í u.þ.b. 15 ár,“ segir hann. Verkefnið sem Snorri vinnur að núna, og hlaut öndvegisstyrk úr Rannsóknasjóði Rannís árið 2014, er því nokkurs konar framhald á fyrri rannsóknum hans.

„Notkun tvístakeinda til að auka næmi segulómunar er tiltölulega nýleg og spennandi uppgötvun. Ég sá möguleika á því að nýta reynslu mína í smíðum á stöðugum stakeindum til þess að smíða tvístakeindir með betri eiginleika en þær sem fyrir eru,“ segir Snorri enn fremur um verkefnið. Að sögn Snorra gengur verkefnið vel og þegar hafa allnokkur stakeindasýni verið útbúin og send til frekari mælinga á rannsóknastofum samstarfsmanna Snorra í Þýskalandi.

„Öllum rannsóknum fylgir einhver óvissa um niðurstöður. Við gerum okkur samt vonir um að smíða verðmæt efni sem bæta munu umræddar mæliaðferðir og auka skilning okkar á þeim lögmálum sem liggja að baki,“ segir Snorri að endingu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is