Bráðameðferð við blásýrueitrun

Þetta viðfangsefni var ómótstæðilegt rannsóknarefni þar sem það tengir klassíska ólífræna efnafræði við lyfjaþróun og heilbrigðiskerfið,“ segir Sigríður Guðrún Suman, dósent í efnafræði, sem hefur þróað virkt mótefni við blásýrueitrun sem nota má í bráðatilfellum.

Blásýra, eða síaníð eins og hún nefnist í heimi efnafræðinnar, er mikilvægt efni í iðnaði. „Það er t.d. notað við námagröft, til að drepa skordýr og í hernaði. Þá hefur verið sýnt fram á að síaníð er til staðar í alls konar reyk, til dæmis reyk af völdum húsbruna þar sem það myndast við ófullkominn bruna efna sem innihalda nitur,“ útskýrir Sigríður.

Hún bendir enn fremur á að sýnt hafi verið fram á að fólk sem verður fyrir reykeitrun nái sér fyrr og betur ef það er meðhöndlað við blásýrueitrun samhliða kolmónoxíðeitrun.

„Hins vegar er síaníð fljótvirkt og oft er of seint að meðhöndla fólk á bráðamóttökunni. Þær meðferðir sem til eru nú felast í að gefa þarf lyf í æð og þær eru kostnaðarsamar, auk þess sem þær útheimta þjálfaðan mannskap,“ segir Sigríður. Því hafi verið þörf á meðferð þar sem hægt væri að gefa lyf í litlu magni, t.d. með lyfjapenna.

Sigríður, sem kom til starfa við Háskóla Íslands haustið 2012 eftir langa dvöl í Bandaríkjunum, hefur unnið að verkefninu undanfarin ár, m.a. með styrk frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna (NIH). „Stofnunin hefur verið að leita leiða til að vernda fólk gegn varanlegum líffræðilegum skemmdum eftir innöndun síaníðs, klórs og taugagass. Ég las mér til um hvernig síaníð dreifist um líkamann og afdrif þess í líkamanum og komst að þeirri niðurstöðu að hugmyndin sem ég var með væri góð,“ segir Sigríður en hún hlaut önnur verðlaun í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2013 fyrir verkefni sitt.

Niðurstöður rannsókna sýna að mótefnið sem Sigríður hefur þróað veldur ekki eitrun í frumum og hefur Sigríður sótt um einkaleyfi á uppfinningunni í samvinnu við hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala með það fyrir augum að selja hana til lyfjafyrirtækja.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessarar uppgötvunar. „Afleiðingar blásýrueitrunar eru einkenni svipuð einkennum Parkinson-sjúklinga og spyrja má: ef valið er á milli þess konar einkenna og afeitrunar í vöðva á slysstað, hvort vilja menn? Heildargildið er bætt heilbrigðisþjónusta á slysstað fyrir alla,“ segir Sigríður.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is